Espergærde. „Þá er það ákveðið.“

Ég lét undan freistingunni að koma við hjá bakaranum í morgun. Göngutúr morgunsins var lengri en venjulega, framhjá kirkjugarðinum, út í skóginn, meðfram Strandvejen og niður á höfn. Eins og svo oft áður gekk ég framhjá litla bakaranum við höfnina. Venjulega er úrvalið þar harla lítið og í morgun var það enn minna. Sennilega hefur bakarinn sofið yfir sig eða kannski hefur hann vantað hveiti eða sykur. Kökuborðið var að minnsta kosti altómt.

Unga, ljóshærða afgreiðslustúlkan í bakaríinu var sennilega hálfneyðarleg yfir ástandi bakarísins því hún hélt sig út við bakvegginn með krosslagðar hendur á brjóstinu. Það var eins og hún væri í felum. Það var eiginlega fyrir tilviljun að ég kom auga á hana þegar ég lét augun reika eftir tómum hillunum. Kannski eru ýkjur að segja að bakaríið væri tómt því þrjú rúgbrauð frá gærdeginum var stillt upp við afgreiðslukassann og ein vesæl rúsínubolla leyndist í fléttaðri tágkörfu í einni af hinum tómu útstillingarhillum.

Ég ræskti mig til að vekja athygli ljóshærðu afgreiðslustúlkunnar á að ég hefði fundið eitthvað sem freistaði mín. Stúlkan tók kipp og setti upp afgreiðslubrosið svo andlitið ljómaði. „Hvað get ég gert fyrir þig?“ spurði hún um leið og hún kom hikandi skrefum í áttina til mín.
„Mætti ég biðja um þessa einmana rúsínubollu sem er í tágkörfunni?“ spurði ég kurteislega og benti á tákörfuna.
„Æ, fyrirgefðu. En hún er frátekin.“
„Frátekin?“ Ég var viss um að hún væri að grínast.
„Já, hárgreiðsludaman hérna á horninu kaupir á hverjum morgni eina rúsínubollu og þetta er hennar bolla. Hún kemur rétt fyrir klukkan níu áður en hún opnar hárgreiðslustofuna og nælir sér í eina rúsínubollu. Og þessi bolla hérna,“ hún benti á rúsínubolluna, „er bollan hennar. Fyrirgefðu.“
„Er ekkert annað til? Af hverju er allt tómt?“
„Bakarinn er veikur.“
„Veikur!“
„Nei, ekki kórónaveikur, “ flýtti hún sér að segja, „ … hann … hann …“
Ég beið og lagði áhugasamur við hlustir til að heyra hvað amaði að bakaranum, en ljóshærða stúlkan virtist ekki geta fengið sig til að segja hvað hrjáði bakarameistarann. Þegar ég sá að ég fengi ekki skýringu á þessu bága ástandi, bæði bakarans og bakarísins bjóst ég til að kveðja.
„Ég á eina muffin … hérna bakvið. Hún er frá því í gær.“ Hún snerist á hæli og gekk inn í bakherbergi og kom að vörmu spori með súkkulaðimuffin sem hún setti ákveðin ofan í brúnan bréfpoka og rétti mér „Gerðu svo vel, þessi súkkulaðikaka er fyrir þig.“
Ég sá á svip stúlkunnar að ég ætti ekki að deila við hana og tók við pokanum og þakkaði fyrir mig.

Og nú einum klukkutíma síðar hefur mér bæði tekist að borða kökuna og sjá eftir því að hafa borðað kökuna. Ég sat í hornstólnum og las í tæpan klukkutíma og tókst á fáum mínútum að háma í mig gjafabolluna frá ungu bakarísstúlkunni. Ég geri þetta aldrei aftur, það er að kaupa mér sætabrauð. Ég segi eins og bakaradrengurinn í Hálsaskógi: „Þá er það ákveðið.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.