Espergærde: 50 orða svar.

Ég hafði hlakkað óvenjumikið til að klára að ganga frá í eldhúsinu í gærkvöldi eftir kvöldmatinn, setjast í hægindastól út í horni og horfa á nýja Netflix-þáttaröð um fótboltafélagið og hafnarbæinn Sunderland. Ég hafði beðið með nokkurri óþreyju eftir frumsýningu á þessum nýja kafla í þáttaröðinni.

Það var kjötbolludagur í gær og því var frekar mikil óreiða í eldhúsinu eftir matargerðina. En á meðan ég stússaði í eldhúsinu rak ég augun í að Æsa, minn stórgóði ritstjóri hjá Forlaginu hafði sent mér tölvubréf. Hún hafði lokið lestri sínum á handritinu sem ég skilaði henni fyrir nokkrum dögum og tölvubréfinu fylgdi listi með gáfulegum athugunum hennar. Slíkur listi frá ritstjóra fær óreyndan bókaskrifara aldeilis upp á annað spennustig. Mig langaði strax að hefjast handa, byrja að plægja mig í gegnum athugasemdirnar, lagfæra, stytta, skreyta, dýpka og bæta við. Skyndilega vissi ég ekki í hvorn fótinn ég ætti að stíga; hvort átti ég að velja Sunderland eða vinna í athugasemdum Æsu. Ég var í klípu.

Ég ákvað þó á endanum að láta Sunderland hafa forgang, nota kvöldið í Netflix og byrja svo strax i fyrramálið á athugasemdunum. Að fylgjast með þessu lánlausa fótboltaliði Sunderland, nýja eigandanum, nýju leikmönnunum, nýja þjálfaranum og öllum hinum ótrúlegu áhangendum félagsins er góð skemmtun. Fyrir gamlan atvinnumann í fótboltamann eins mig, sem þekkir búningsklefann, táflýluna, tárin, svitann og gleðina er þetta stórfínt. Mjög gott.

Ég horfði á heila fimm þætti í gærkvöldi og skreið upp í rúm upp úr klukkan eitt í nótt. Þegar ég lá undir sæng og las netútgáfu Politiken á iPadinum mínum barst tölvubréf frá blaðamanninum góðkunna Kolbrúnu Bergþórsdóttur sem átti erindi við mig sem þýðanda glæpasögunnar Þöglu stúlkunnar eftir Hjorth Rosenfeldt. Mér skilst að bókin sitji nú á toppi allra hugsanlegra íslenskra metsölulista. Langsöluhæsta bók landsins, yo!

Kolbrún er örugglega nátthrafn eins og aðrir blaðamenn og vinnur seint um kvöld. Í næturbréfinu spurði hún hvort ég nennti að svara þremur spurningum í afar stuttu máli. En spurningarnar þrjár eru allar mjög víðtækar og sumar spurninganna er svo samofnar tíma og fortíð, sögum sem teygja sig langt aftur á bak yfir áratugi. Kolbrún skrifar:

„Af hverju ákvaðstu að koma út úr skápnum sem þýðandi? 
Finnst þér gaman að þýða?
Hvernig var að þýða Þöglu stúlkuna?
Vona að þú nennir að svara.
Kær kveðja, Kolla.“

Já, af hverju ákvað ég að koma út úr skápnum sem þýðandi? Svarið við þessari spurningu er svo langt og ég hef bara um það bil 50 orð í dagblaðinu hennar Kolbrúnar til að svara þessari mikilvægu spurningu. Það er rétt hjá blaðamanninum að ég hef í mörg ár þýtt undir nafninu Ásta S. Guðbjartsdóttir (og stundum með Jóni Karli), ég hef gert óteljandi margar bókakápur undir þessu nafni, ég hef sent höfnunarbréf til höfunda sem hafa sent handrit sín til Bjarts með undirritun Ástu S. Guðbjartsdóttur forstöðumanns handritasviðs, ég hef sent rukkunarbréf til bóksala með undirritun Ástu forstöðumanns lögfræðisviðs, ég hef brugðið mér í gervi Ástu þegar fjölmiðlar hafa tekið viðtöl við hana, ég hef búið til ljósmynd af henni sem ég byggði á konu á rússneskri stefnumótasíðu, ég hef skrifað stuttar greinar um bókmenntir og bókaútgáfu á vefsíðu í hennar nafni; Bókaskápur Ástu S. (Ég íhugaði meira að segja að gera tilraun til að skrá Ástu S. í Þjóðskrá.)

Ásta S. Guðbjartsdóttir hefur sem sagt verið mitt annað sjálf í meira en tuttugu ár og nú á ég að útskýra í 50 orðum hvers vegna ég ýti henni til hliðar þegar ég þýði bækur árið 2020. Ég kemst líklega að því að ég á ekkert almennilegt fimmtíu orða svar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.