Espergærde. Ég kem nafninu ekki fyrir mig.

Ég var í gær spurður að því – í vinsamlegu bréfi – hvaða karlfyrirmyndir ég ætti eða hefði átt. Um þetta hafði ég aldrei hugsað, ég hafði aldrei leitt hugann í þessa átt. En mér til nokkurrar undrunar datt mér fyrst af öllum í hug pabbi minn. Þetta með undrunina má kannski misskiljast. Ég hef sennilega aldrei fyrr séð pabba minn sem beina fyrirmynd því það voru í mínum huga nokkrir augljósir þættir í fari hans sem ekki var minn stíll. En aftur á móti hef ég svo oft hugsað um hvað ég dáði staðfestu hans, hæfileikana til að hugga ókunnuga, tala af einlægri virðingu við fólk sem fór af einhverjum ástæðum halloka. Og svo dáðist ég að hugrekki hans.

Þeir karlmenn sem ég hélt að ég mundi líta á sem fyrirmyndir mínar, Maldini, Ishiguro, Guaradiola, Tom Waits komu ekki í huga minn. En samt lúrði í bakhöfðinu hugsunin um að ég hlyti að hafa hitt einhvern karlmann í lífi mínu þar sem ég hugsaði að svona vildi ég vera. Kannski er ég að hugsa um réttlátan mann, örlátan, góðviljaðan, hógværan, kurteisan, hugrakkan, snjallan og fyndinn. Ég hlýt að hafa hitt slíkan mann á götu minni. Ég kem bara nafninu ekki fyrir mig.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.