Ég þekki einn rithöfund sem enn skrifar á ritvél. Þrátt fyrir allar heimsins tölvur, þrátt fyrir öll heimsins ritvinnsluforrit, velur hann að skrifa á ritvél sem hann fékk sér árið 1974 við heimkomuna eftir útlandadvöl. Þetta er handknúin Olympia. Hann situr á heimaskrifstofu sinni frá morgni til kvölds og hamrar á Olympia ritvélina. Hann hefur allar skrifað á ritvél alveg síðan hann var unglingur þegar hann byrjaði að fikta við skáldskaparskrif. Í öðru herbergi í sama húsi situr konan hans. Hún er líka rithöfundur. Hún notar tölvu.
Rithöfundurinn hefur ekki farið út úr húsi síðan í byrjun mars enda smitaðist hann af kórónavírusnum – af rithöfundinum konu sinni. En hann segir að það hafi ekki breytt svo miklu fyrir sig því hann kann vel við einveruna, honum finnst gott að vera í félagskap við sjálfan sig og skrifa það sem hann hugsar.
Þegar hann lítur út um gluggann á húsi sínu, sem er í eftirsóttu hverfi við Park Slope, sér hann ekki marga á ferli, hvorki gangandi né akandi. Allir halda sig inni og fáir hætta sér út. Hann neitar að kalla forseta lands síns með nafni. Hann notar sömu aðferð til að tala um forsetann og persónur í Harry Potter tala um Voldemort, „sá sem ekki má nefna“. Forsetinn er kallaður sá fertugasti og fimmti á heimili rithöfundarins. „Forsetinn er svo óhæfur, hann er svo mikið fífl (afsakið orðalagið) að það er algerlega óbærilegt.“
Nú er spurt: Hver er höfundurinn sem um ræðir? Því má bæta við að umræddur höfundur á heldur ekki það sem kallast snjallsími.