Espergærde. Ástir samlyndra höfunda

Allt í einu og algerlega upp úr þurru fór ég að endurraða í bókahillunni hjá mér. Hingað til hefur kylfa ráðið kasti og bækur bara settar í laust hillupláss. Ég tók nefnilega eftir því í gær að bækur sumra íslenskra rithöfunda var ekki raðað eftir skaplyndi eða samlyndi. Ég tók til dæmis eftir því að Thor Vilhjálmsson og Guðmundur Andri voru hvor í sínum enda hillunnar, það fannst mér ekki gott, Sjón var við hlið Jóns Kalmans og ég er ekki viss um að þeir eigi skap saman, og svona mætti lengi telja.

Ég byrjaði á að færa Steinar Braga burt frá öðrum íslensku höfundunum. Einhvern veginn hef ég fengið á tilfinninguna að honum sé í nöp við flesta íslenska höfunda, sérstaklega þá sem eru eldri. Ef til vill skjátlast mér en ég flutti hann samt. Ég flutti líka bækur Gerðar Kristnýjar burt frá Eiríki Guðmundssyni, þau tvö hlið við hlið fannst mér ekki passa og setti þess vegna Eirík við hlið Jóns Kalmans og svo tók ég bók Magga Guðmunds og setti við hlið þeirra svo þeir vinirnir stæðu hlið við hlið.

Bragi Ólafsson er höfundur sem setur horn í síðu þeirra sem honum líkar ekki við, snýr sinni köldu hlið að þeim sem hann ber óvild til og því var ég í vanda staddur. Það hlýtur að vera óþægilegt bæði fyrir Braga og þann sem stendur við hlið hans ef anda skyldi köldu á milli. Hinn kaldi eldur. Hvar skyldi ég setja bækur þessa fámælta höfundar? Ég ákvað eftir nokkra umhugsun að setja hann við hlið Gyrðis Elíassonar. Þeir eiga skap saman þessir tveir sem eiga það sammerkt að bera ansi heiftúðugan óvildarhug til þeirra sem þeim líkar ekki við, hugsaði ég. Þeir tveir eru góðir saman. Pétur Gunnarsson hefði ég sennilega getað sett við hlið allra en ég ákvað að setja hann við hlið Guðmundar Andra og Thors. Andri og Pétur, tveir mildir menn. Það er líka gott.

Ég var heldur ekki viss um hvar ég ætti að staðsetja Auði Ólafsdóttur en ákvað að Óskar Árni gæti verið góður við hlið hennar. Hann er kankvís hann Óskar og getur kannski gert Auði lífið léttara. Ég setti Paul Auster við hlið Siri Hustved en þau höfðu verið langt frá hvort öðru.

Það var dálítið sérkennilegt val hjá mér að raða þeim saman Hallgrími, Einari Má. Að vísu setti ég Steinunni Sig á milli þeirra. Einhvern veginn sá ég fyrir mér að þau gætu talað saman á þennan sérkennilega hátt sem sumt fólk gerir. Öll þrjú geta verið mjög skemmtileg en samt eiga þau ekki mikið sameiginlegt, eða hvað? Ég sá fyrir mér samtal þar sem öll þrjú eiga hálf annars hugar samtal, orðin koma hálfhjörtuð og í kjölfarið stuttur hlátur. En til að auðvelda Hallgrími lífið setti ég Huldar, þann góða mann, á hans hægri hönd.

En einni bók eftir einn íslenskan höfund henti ég í ruslið. Já, furðulegt hvað ég get verið fúll stundum. Þegar ég sá bókina rifjuðust upp fyrir mér samskipti mín við þennan höfund og mér fannst óheiðarleikinn lýsa af bókinni og allt í einu gat ég ekki hugsað mér að hafa bókina í húsinu. Ég setti bókina í plastpoka, batt hnút fyrir opið og henti bókinni út í tunnu eins og hverju öðru drasli. Ég er svakalegur maður.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.