Espergærde. Skip fyrir akkerum

Hvaða skip liggur fyrir akkerum undan hafnarkjaftinum rétt eftir sólarupprás? hugsaði ég þegar ég var kominn niður á Strandvejen fyrir allar aldir. Ég hef aldrei fyrr séð svo stórt skip hér undan ströndinni. Þetta var þó ekki skemmtiferðarskip þótt mér dytti fyrst í hug að nú þyrfti einhver að smygla vírussýktum öldungum í land. Kannski var matarforðinn uppétinn? En þegar ég kom nær sá ég að þetta var líklega ferja eða snekkja en ekki skemmtiferðarskip. Hvorki áhöfn né farþegar virtust vera komnir á stjá svo árla morguns því yfir skipinu lá bláleitur svefnskuggi.

Hér í Espergærde er mikil vorblíða; allt er lýst upp af sólinni og ekki bærist hár á höfði. Í gær tók ég upp nýja aðferðarfræði við að raða bókunum mínum. Sú nýja bókaröðun sem ég kynnti virtist vekja lesendur Kaktuss til lífs. Ég sjálfur var allan gærdag úti sólinni að stússa í garðinum; hreinsa til eftir veturinn og var því fjarri hinum stafræna heimi. Þegar ég kom inn síðla dags biðu mín óvenju mörg skilaboð og kom það í ljós að dagbókarlesendur báru bæði upp tillögur að endurröðun í hillunum hjá mér og til að spyrja hvaða bók ég hafi hent í ruslið í fyrradag. Ég þakka góðar ábendingar og hef orðið við sumum af þessum góðu tillögunum. Ég hef meðal annars flutt Bergsvein Birgisson við hlið Sölva Bjarnar. Ekki veit ég hvort þetta sé gott í veruleikanum en mér fannst tillagan fyrirtak.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.