Espergærde. Hin pressuðu ungmenni.

Ég finn að unglingarnir mínir eru undir svolítilli pressu í þessu kórónafári. Númi sem á að útskrifast úr menntaskóla í sumar saknar allra partýanna, samvistanna með vinum sínum og forútskriftargleðinnar sem er svo mikilvæg hér í Danmörku. Það var þungt yfir honum í gærkvöldi eftir að forsætisráðherra hafði flutt boðskap sinn á blaðamannafundi. Ekki beint upplyftandi tíðindi.

Davíð saknar líka skólafélaganna sinna og í fyrsta skipti í örugglega fimm ár kom hann í nótt með sængina sína inn til okkar Sus og spurði hvort hann mætti sofa á milli okkar. Að vísu varð þessi heimsókn til að ég flutti mig yfir í herbergið hans því mér fannst loftið verða svo þungt og þrengslin í rúminu of mikil. Ég átti satt að segja erfitt með að sofna aftur eftir að lagðist inn í rúmið hans Davíðs, hugsanir um handritið sem ég hef í hausnum hringsnerust í sífellu og ég fékk – að mér fannst – skyndilega afar góðar hugmyndir. Það sem eftir var nætur var ég sífellt að minna mig á hugmyndirnar svo þær gufuðu ekki upp eða festust í druslum og netum svefnhugans og kæmu ekki aftur upp á yfirborðið. Þegar ég vaknaði í morgun var ég ekki eins viss um að hugmyndirnar væru jafn frábær og ég hafði haldið í nótt.

Í síðust viku skrifaði mér íslensk kona búsett í útlöndum. Hún sagði mér að hún læsi Kaktusinn reglulega og ætti erindi við mig í tilefni af því sem ég hafði skrifað í dagbókina. Í lok afar vinsamlegs bréfs spurði hún – eins og til að gauka að mér góðri hugmynd – hvort ég hefði lesið kanadíska höfundinn Robertson-Davies. Það hafði ég ekki og ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei heyrt mannsins getið. Ég var fljótur að taka ábendingu konunnar til athugunnar og á endanum keypti ég mér þá bók sem mér fannst eðlilegast að kynna mér fyrst af öllum úr dágóðu úrvali rita eftir höfundinn. Og viti menn! Ég hef mjög gaman að Robertson–Davies. Sennilega á þess gamla, epíska frásagnaraðferð vel við mig þessa dagana; alvitur sögumaður flytur sögu með öllum sínum flækjum og smám saman er frásögnin komin inn í hjarta lesandans.

En svona er staðan á hinum nýbakaða höfundi. Ég plægi mig í gegnum góðar ábendingar Æsu ritstjóra míns hjá Forlaginu. Hægt og rólega sigli ég í gegnum handritið, mjaka til orðum og setningum, eyði og bæti við. Á kvöldin les ég eða þýði. Það er langt í næsta þýðingar-dead-line, (banalínu). Ef ég þýða um það bil fimm blaðsíður á kvöldi ætti mér að takast að klára á réttum tíma.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.