Espergærde. Barþjónninn og mennirnir í málningagöllunum

Það er tvennt sem ég sé dálítið eftir, svona eftir á að hyggja.
1) Ég á engar almennilegar ljósmyndir af mér í AC Milan búningnum og ég á engar myndir af mér og Maldini saman. Ég man að einu sinn var tekin mynd af okkur tveimur þar sem við héldum um axlir hvors annars,. Við stóðum fyrir framan hvítu vespuna mína og vorum á leið á veitingastað með köflótta dúka upp í fjöllunum. Báðir vorum við með blautt hár eftir hafa verið í sturtu eftir æfingu.
En sú ljósmynd er fyrir löngu glötuð.

2) Á Ítalíuárum mínum vann ég á litlum, tilgerðarlegum bar. Innréttingin átti að minna á enskan heldrimannaklúbb. Ég var settur á dagvakt því þá komu fáir gestir og ég var lélegur barþjónn. Aldrei á ævinni hafði ég búið til kokteil eða blandað drykki í réttum hlutföllum. Á barinn kom varla nokkur maður yfir daginn svo ég hafði mjög góðan tíma til sinna því sem mér hefur alltaf þótt skemmtilegt: að lesa góða bók í þægilegri stellingu og horfa einn á fótboltaleik. Á barnum voru mjúkir enskir leðurstólar ætlaðir enskum hefðargestum eða þeim Ítölum sem langaði að líkja eftir lífsstíl enskra heldri manna. Stólunum var stillt upp tveimur og tveimur saman og lítið borð á milli. Á borðinu var mjög enskur lampi sem gaf litla birtu. Á veggnum hékk úrval enskra dagblaða á sérútbúnum hanka. Þarna sat ég tímunum saman í einum af þessu mjúku leðurstólunum og las. Ekki ensk dagblöð þótt úrvalið væri framúrskarandi heldur las ég bækur Calvinos og Faulkners.

En það sem ég ætlaði að segja, og tengist eftirsjá minni, (liður tvö). Þegar ég hafði unnið á barnum – sem hét Winslow & Winslow Old English Pub – í nokkrar vikur byrjuðu fjórir írskir karlmenn að venja komur sínar á barinn mér til mikillar armæðu. Þetta voru sennilega málarar sem höfðu fengið verkefni í nágrenninu því þeir voru allir klæddir í hvíta galla með málningarslettum. Þeir fengu sér sæti við barinn og pöntuðu allir Guinness bjór, fleiri en einn í hverri heimsókn. Þeir sem hafa unnið á bar vita að ekkert er eins leiðinlegt og að dæla Guinness bjór í glas. Endalaus froða og það tekur mjög langan tíma. Þessar bjórpantanir drógu mig frá bókunum mínum og/eða frá fótbolta ef það var skemmtilegur leikur í sjónvarpinu. (Sjónvarpstæki hékk í einu horni barsins). Þessir fjórmenningar fóru því ósegjanlega í taugarnar á mér. Og þeir komu dag eftir dag sama hvað ég veitti þeim lélega þjónustu. Viku eftir viku komu þeir. Ég held að þeir hafi verið að mála kirkju í námundanum. Ekkert málningarverkefni tekur lengri tíma en kirkjumálun, það veit ég sem gamall málaradrengur. En svo gerðist það að ég fór að kunna meta heimsóknir þessara félaga; ég fór að hlæja að gamansemi þeirra og ósvífni. Félagaskapur þeirra var orðinn eftirsóknarverður.

Nú, áratugum seinna þegar ég rifja upp þessa tíma, langar mig að skoða mynd af þessum fjórmenningum og rifja upp andlit þeirra sem ég hef algerlega gleymt. Ég get ekki séð þá fyrir mér. Mig rámar þó í rauða húð. Og ég er líka búinn að gleyma hvað þeir hétu.

En sem sagt mig vantar tvær ljósmyndir úr lífi mínu:
1. Af okkur Maldini fyrir framan vespuna mína.
2. Af þessum litríku írsku fjórmenningum í málningargöllunum.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.