Espergærde. Broddgeltir og moldvörpur

Hvernig gekk að hlaupa? Þessari spurningu hef ég þurft að svara nokkrum sinnum í dag. Í gær tilkynnti ég sjálfum mér og öðrum að ég ætlaði að hefja hlaupaferilinn á ný. Og ég hafði varla sett punktinn fyrir aftan setninguna um hlaupaáformin hér á Kaktusnum þegar ég hljóp af stað. Að vísu fann ég ekki hlaupaskóna mína sem ég notaði fyrir tæpum þremur árum. Ég varð því að hlaupa í adidas-skóm með þunnum botni sem ég fann inn í skáp. En í stuttu máli ég hljóp mína fimm kílómetra án erfiðleika. Tíminn var ekki til að hrópa húrra fyrir 5:29 pr. kílómeter (sorry, Snæi minn, hvað ég er orðinn hægur!). Ég ákvað líka að fara að minnsta kosti ekki of geyst í byrjun. Þó fór ég það hratt af stað að ég datt næstum niður snarbrattar sex metra háar tröppur á vegi mínum þegar ég ætlað að hlaupa hratt niður. Mér brá svo rosalega þegar ég náði að grípa í handritið að ég sagði upphátt við sjálfan mig: Snæi minn, farðu nú varlega, elskan mín. Ekki viltu fótbrotna í tröppum og deyja eins og Jónas Hallgrímsson. (En hann dó í Danmörku eins og sumum er kunnugt.)

Að öðru: Það er fallegt veður hér í dag og ég gekk mína löngu göngu í morgun – út á engin og milli akrana – og komst að raun eftir stutta íhugun að ég hef aldrei á langri og góðri ævi séð moldvörpu og ég hef heldur aldrei séð broddgölt. Ég hef á tilfinningunni að það séu falleg dýr og gaman væri að fá að sjá þau áður en maður deyr.

Annars mætti ég fólki (hjónum) í morgun á göngu minni sem virtist af einhverjum ástæðum í fýlu út í mig (ég átti erfitt með að túlka fálæti þeirra á annan hátt). Ég er enn að velta fyrir mér hvað ég hafi gert þeim, stundum segi ég einhverja vitleysu sem getur útleyst fýlu. Mér finnst það alltaf alger óþarfi en það er víst ekki mitt að dæma um fýlu annarra – hvenær hún er réttmæt og hvenær ekki. Mér finnst bara aldrei ástæða til að fara í fýlu út í mig. Yo!

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.