Tvö af lykilorðum dagsins, eða kannski þessara upprisudaga, eru: skelfist eigi og hann er ekki hér. Þetta rann upp fyrir mér eiginlega um leið og ég opnaði augun í morgun. Úti ýlfraði hvass vindur og það var einhver ókyrrð í loftinu öfugt við það sem hefur verið síðustu daga þegar maður hefur vaknað til fuglasöngs og mildrar birtu. Já, skelfist eigi.
Í gærkvöldi sat ég yfir þýðingu, – ég reyni að halda afköstunum góðum, línuritið á helst að vísa upp á við – barðist við að snúa textanum yfir á góða íslensku og láta frummálið ekki villa mér sýn. Mitt í þessum yfirfærsluhamagangi fór ég að hugsa um þær þýðingar sem Pétur Gunnarsson skilaði til mín þegar ég var útgefandi á Íslandi. Ég man að ég hugsaði með mér þegar ég las yfir textann: enginn núlifandi maður skrifar jafn fallegan og gagnorðan texta og Pétur. Vangavelturnar í gærkvöldi yfir Pétri, Proust og Flaubert urðu til þess að ég sótti þýðingu Péturs á Frú Bovary og fór að lesa hana aftur fyrir svefninn. Stórkostleg þýðing. Svona þýðingu vildi ég að ég gæti skilað af mér.
Um daginn las ég þýðingu Höllu Kjartansdóttur á glæpasögunni Þerapistinn, – sem er sennilega ekki enn komin út – og ég hugsaði oft á meðan lestrinum stóða að texti Höllu væri aldeilis heill, tilgerðarlaus og fínn. Svo las ég aðra þýðingu um svipað leyti á bók eftir Ruth Ware. Ég tók ekki eftir hver þýðandinn var en íslenski textinn var svo makalaust lélegur að ég gat ekki lesið nema þrjár blaðsíður áður en ég gafst upp og fann ensku frumútgáfuna og las hana.
ps ég fór í langan göngutúr í morgun (no worries ég ætla líka að hlaupa) og á göngunni hitti ég aftur hjónin sem voru svo þumbaraleg við mig í gær. Ég held að þau hafi séð eftir fálætinu því í dag voru þau ekkert nema ýkt elskulegheit. Ég á mjög erfitt með að skilja táknmál tilfinninga þeirra.