Ég horfði á heimildarþátt í gær um rithöfundinn og blaðamanninn Joan Didion. Vinkona mín hér í bænum mælti svo eindregið með þættinum sem er á Netflix. Henni sjálfri þótti þátturinn svo góður að hún hafði horft á hann tvisvar sinnum. Ég viðurkenni að ég þekkti ansi lítið til þessarar bandarísku skáldkonu. Á ferðum mínum um New York fyrir ári keypti ég eina af bókum hennar, að vísu bara þunnt hefti þar sem hún segir frá skrifverkstæði sínu. Bókina hafði ég keypt af forvitni því ég var alltaf að rekast á nafn Joan Didion. Ég las bókina en varð ekki miklu fróðari um skáldkonuna. En nú þegar ég hef séð þennan fína heimildarþátt langar mig að lesa heftið aftur því nú veit ég að ég skil hana betur. En því miður, þrátt fyrir hina nýju röðun í bókahillurnar þar sem ég tek mið af samlyndi höfunda, finn ég heftið ekki. En mér fannst þátturinn bara nokkuð góður.
Annars á ég mikilvægt erindi til íslenskra stjórnvalda og ég vona að Katrín Jakobsdóttir lesi þetta. Ég er nefnilega með tillögu í efnahagsmálum, mjög góða tillögu sem ýtir undir gleði þjóðarinnar um leið og tannhjól efnahagslífsins eru knúin áfram. Tillagan er svona: Ef keyptir eru miðar á tónleika gildir kvittunin sem frádráttur af tekjum heimilis og lækkar skattstofn, sé farið á veitingastað gildir kvittunin fyrir veitingakaupunum sem frádráttur á tekjum. Sama gildir um áskrift á dagblaði, bókakaup, kaup á leikhúsmiðum, listaverkakaup, kaup á bíómiðum …. Sem sagt veittur verði skattaafsláttur við kaup á menningarefni –> gangverk menningarlífsins verður þar með sett í gang –> gleði þjóðarinnar eykst -> allt gott. Kostnaður ríkissjóðs ætti ekki að verða svo gífurlegur ef gert er ráð fyrir aukningu á menningarstarfssemi og öllum þeim aukatekjum sem ríkissjóður fær af því (í formi virðisaukaskatts og afleiddum kaupum menningarneytenda (popp og kók í bíói … betri lífsskilyrði leikhúsa, veitingastaða (færri gjaldþrot)). Og þjóðargleðin verður mun meiri. Er það ekki einmitt meginmarkmið stjórnmálamanns að gera þjóðina hamingjusama. Ég veit að Katrín Jakobsdóttir hugsar þannig, hún er knúin áfram af elsku til annarra.
ps. Ég les þýðingu Péturs Gunnarssonar á Frú Bovary með mikilli áfergju þessa dagana. Ekki beint söguna sjálfa heldur frekar hverja setningu fyrir sig. Þetta er hinn nýi þýðingarskóli sem ég geng í.
pps. Ég var búinn að skrifa dagbókarfærslu dagsins sem fjallaði um allt annað en svo gerðist eitthvað í tölvunni svo dagbókarfærslan hvarf af skjánum og ég hef ekki fundið hana aftur. Þá fóru þær hugsanir í gleymskunnar bál.