Espergærde. „That’s nice, that is really nice.“

Úti á veginum fyrir framan húsið mitt mætti ég hjónum sem ég veit að búa aðeins neðar í götunni. Ég mæti þessum hjónum oft á göngu. Þau eru göngugarpar og ég hef tekið eftir að þau fara oft í langa göngutúra, bæði virka daga og um helgar. Ég veit ekki hvað þau heita en ég hef heyrt að hann hafi verið einhvers konar forstjóri og er fyrir löngu hættur að vinna. Þó eru þau ekki sérlega gömul, kannski að verða sjötug.

Þetta eru viðkunnanleg hjón og vinsamleg. Við heilsumst alltaf kurteislega þegar við mætumst á göngu okkar. Hann er snaggaralegur, alltaf kankvís og bætir yfirleitt einhverju hressilegu við þegar hann hefur heilsað. Konan hans segir hins vegar aldrei neitt. Hún er ekki óvinsamleg en ég held hún hafi ekki þörf fyrir svona kurteisishjal. Hún bíður bara þegjandi eftir að maðurinn hennar hafi lokið sér af með spjalli um veðrið eða ástand dægurmála.

Í morgun þegar ég gekk út og mætti þeim sá ég á manninum að hann vildi segja eitthvað meira en venjulega. Ég hafði hljóðbók í eyrunum svo ég heyrði ekki hvað hann vildi mér. Ég flýtti mér að slökkva og hváði eftir erindi mannsins.
„Geturðu haldið þetta út?“ endurtók hann og það var ekki sami glampi í augunum á honum og venjulega.
„Já, ég held þetta út,“ svaraði ég.
„Við erum vön að hafa mörg boð og fá gesti yfir páskana. En nú kom enginn. Maður hittir enga …“ hann horfði dapurlega á mig.
„Nei, maður hittir enga. Nú var ég að lesa í dagblaði að kannski fæ ég ekki að koma til Íslands á næstunni. Ég kem sko frá Íslandi …“ sagði ég.
Og nú gerðist nokkuð sem kom mér á óvart því konan steig fram og sagði með svo mikilli innlifun og samúð: „Ég heyri að þér finnst það erfitt.“
Ég varð hálfhvumsa yfir þessari óvænta innskoti, þessum innileik og ég fann jafnvel enn meira fyrir depurð minni yfir því að geta ekki hitt mitt fólk á Íslandi. Við sögðum ekki fleira og kvöddumst.

ps. Einu sinni var ég á ferðalagi um Nýja Sjáland og hitti gamlan bónda sem bjó langt frá öllum, langt úti á landi. Hann hafði félagsskap af litlum grísum sem hann borðaði ekki og hænum sem verptu eggjum út um allt og hann fann aldrei eggin þeirra. Hann horfði á mig  þar sem ég stóð öðrum megin við gaddavírsgirðingu og hann andspænis mér hinum megin gaddvírsins. Hann hafði sérkennilega sakleysisleg, blá augu.

„Þegar þú bjóst á Íslandi, varst þú þá sjómaður?“ spurði hann mig með sinni lágstemmdu röddu. Hann horfði á mig með einlægri forvitni. Hann beið andaktugur eftir svari. Augun voru alvarleg.
„Nei, ég var ekki sjómaður,“ svaraði ég.
„Hvað gerðirðu þá,“ stutt hik, „…þegar þú varst á Íslandi?“
„Ég gaf út bækur.“
Mér til mikillar undrunar, ljómaði maðurinn. Ég hef aldrei séð nokkurn svo ánægðan með gamla starfið mitt. Flestir vita ekki einu sinni hvað það þýðir að gefa út bækur (ertu prentari…. skrifar þú bækur… segja flestir). En þessi einbúi var himinlifandi.
„That’s nice, that is really nice!“

Nú löngu seinna heyri ég þessa blíðu rödd hljóma inni í höfðinu á mér: „That’s nice, that is really nice!“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.