Espergærdi. Hið ótrúlega.

Fyrir nokkrum dögum setti ég fram tillögu í efnahagsmálum. Yo! Mér fannst tillagan góð og var viss um að ef farið yrði eftir henni hefði framkvæmd hennar sömu áhrif á lífið á Íslandi og góður blómaáburður hefur á vöxt blómanna. Allt mundi blómstra og lifna. Já.

Ekki stóð á viðbrögðum við tillögunum og fleiri en einn og fleiri en tveir lesendur Kaktussins sögðust ætla að sjá til þess að hugmyndir mínar rötuðu á borð ríkisstjórnarinnar eða til sjálfs firsætisráðherrans.

Í gær sat ég eins og venjulega hér á vinnustofu minni og var niðursokkinn í að afkasta, ýta verkefnum áfram og reyna að vera sjálfum mér og öðrum að einhverju gagni. Dauðaþögn grúfði vinnustofunni og líka yfir mér. Ekkert heyrðist nema smellirnir í lyklaborðinu þegar fingur mínir dönsuðu fimlega milli bókstafanna.

Og svo hringdi síminn. Hér hringir síminn aldrei svo mér dauðbrá. Ég horfði dolfallinn á skerminn og sá að símanúmerið var íslenskt og augljóslega virðulegur einstaklingur sem hringdi því númerið endaði á tveimur núllum. Einhvern veginn var ég svo seinn að taka við mér – ég hef sennilega starað svo lengi í undrun minni á símann – að hringingarnar hættu jafnskyndilega og þær hófust. Ég tók kipp og flýtti mér að svara en enginn var á línunni. Ég beið eftir að hringt yrði aftur. Tíminn leið. Engin símhringing. Ég fletti upp á númerinu hjá ja.is til að reyna finna út hver hefði hringt og mér til nokkurrar undrunar sá ég að símanúmerið tilheyrði Fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Ég viðurkenni að ég hef klórað mér í hausnum og velt fyrir mér hver frá Fjármála- og efnahagsráðuneytinu ætti erindi við mig. Og hvert skyldi erindið vera? Ekki hafa efnahagstillögur mínar fengið hljómgrunn, það væri bæði fyndið og hreint ótrúlegt.

ps. Ég hitti einu sinni gamlan bónda sem bjó á afskekktum stað í Dölunum. Hann hafði ekki komið til Reykjavíkur í fimmtíu ár. Þetta var rétt fyrir 1980. En gamli bóndinn var mjög forvitinn um lífið í Reykjavík og hann drakk í sig hvert orð þegar ég lýsti fyrir honum því sem gerðist í bænum. Af einhverjum ástæðum fór ég að segja honum frá leiðarkerfið SVR og sagði að miðstöð strætisvagnanna væri við Hlemm og þar söfnuðust strætisvagnarnir saman mörgum sinnum á klukkutíma áður en hver vagn færi svo í sína átt, í hringferð sem endaði svo aftur á Hlemmi. Mér til furðu horfði gamli maðurinn gífurlega vantrúaður á mig og sagði svo: „Nú ertu að skrökva. Þessu trúi ég ekki. Nú segir þú ekki satt.“ Og enn í dag er ég svo undrandi á að honum hafi þótt nákvæmlega þessi þáttur lífsins í Reykjavík ótrúlegastur af öllu sem ég sagði honum; að strætisvagnarnir hefðu miðstöð við Hlemm.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.