Espergærde. Moldin og englavængirnir.

Í morgun þegar ég gekk út fyrir bæjarmörkin tók ég eftir að úti á akrinum var traktor að störfum. Ég er eins og fleiri plebbar: ég hef gaman af að horfa á menn stjórna vélum (mér finnst til dæmis gaman að fylgjast með fólki bakka með aftaníkerru). En best af öllu finnst mér þó sjá vélar róta í gróðurmold. Nú er búið að plægja moldina, róta í henni og fylla hana af súrefni og lífi. Og nú hlakka ég til þegar vélarnar fara að keyra með frækorn og dreifa ofan í þessa frjósömu jörð.

Annars datt mér það í hug þegar ég tala um frjósama jörð. Dagblöð á Íslandi virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að það sé ekki frjósöm jörð fyrir menningarskrif af neinu tagi á Íslandi. Menningarskrif dagblaðanna eru ansi rýr og þunn, nánast engin. (Ég las þó ansi skemmtilega grein Einars Fals um nýju Tinnaþýðinguna. Sjaldgæft að rekast á jafn skemmtileg skrif um menningarefni á Íslandi). Ég veit af fjölmörgum kunningjum mínum sem sækja sitt menningarefni til The Guardian, The New York Times (þetta eru útlend dagblöð, rituð á ensku). Og í fyrradag heyrði ég í manni sem hefur gerst áskrifandi að Politiken til að geta fylgst með líflegri menningarumfjöllun þess danska dagblaðs. Vandi félag míns var að hann var frekar lélegur í dönsku og átti í erfiðleikum með að skilja dönsku menningarskrifin. En þorstinn var svo mikill og honum er ekki svalað á Íslandi því greip hann til þessa ráðs.

Ég rakst á menningarsíðu sem heitir smygl.is í vikunni. Aldrei hafði ég heyrt um hana, en þar er metnaður fyrir að reyna að halda uppi daglegum menningarskrifum. Húrra fyrir smygli.is

ps. ég varð svo hugfanginn af moldarvinnunni á gönguferð minni að ég ákvað að fara að vinna í mold í garðinum mínum. Ég fann poka með blómafræjum (þúsund blómafræjum) og ákvað að taka hvert og eitt fræ og pota því sentímeter niður í jörðina. Það tók langan tíma en mér fannst notalegt að skríða með nefið niður í moldinni í vorveðrinu í dag.

pps. Ég mætti gamalli konu í morgun á göngu minni. Hún stoppaði mig á miðjum göngustíg sem liggur út í skóg hér fyrir utan bæinn. „Nei, sjáðu,“ sagði hún og benti upp í himininn. Ég leit upp og sá nokkur ský breiða úr sér á bláum himninum. „Sérðu ekki, ungi maður, að þú gengur undir vængjum engils.“ Þegar ég skoðaði skýin á himninum fyrir ofan mig sá ég að það var satt sem gamla konan sagði; skýin mynduðu englavængi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.