Espergærde. Rosalega er sorglegt að sjá blaðið.

„Ekki missa löngunina til að ganga. Ég geng á hverjum degi svo ég finni fyrir þeirri vellíðan sem því fylgir. Ég geng af mér allar pestir: á göngu hef ég hugsað mínar bestu hugsanir og ég þekki enga hugsun svo þunga að ekki sé hægt að ganga hana af sér,“ sagði Søren Kirkegaard í einu af sínum fjölmörgu sendibréfum sem hann skrifaði.

Mér datt þetta í hug því að Sus benti mér á gönguleið sem Søren Kirkegaard gekk daglega á meðan hann var í hressingardvöl í Gilleleje á Norður Sjálandi. Þessi gönguleið er 12 kílómetrar og ég var ekki lengi að taka tilboði Sus að ganga þessa Kirkegaard-slóð sem reyndist hin alfallegasta gönguleið sem ég hef lengi gengið. Veðrið er (nt.) svo fallegt og útsýnið var (þt.) svo fallegt. Mitt í náttúrunni er maður laus við lífsins þrúgandi og kæfandi loft og þar andar maður frjáls. Hér er sálin viljug til að opna sig fyrir öllum göfugum tilfinningum. Hér gengur maður um sem herra náttúrunnar en um leið finnur maður að náttúran er manni æðri, fyrir henni beygir maður sig. Hér er nauðsynlegt að leggja sig flatur fyrir því valdi sem stýrir öllu. Yo!

Síðustu daga hef ég setið við þýðingar á kvöldin á glæpasögu sem fjallar um mann sem hefur fengið svo nóg af „heimsku, fávísi og dýrkun fávitaháttarins“ og að „lágkúran sé alls staðar í öndvegi“ Hann ákveður að drepa nokkrar af þessum nýju nútímastjörnum (raunveruleikaþáttastjörnur) sem hafa „ekkert til að bera annað en að vera idjótar.“

Stundum get ég ekki annað en verið sammála þessari sögupersónu (ekki að drepa heldur að nóg er um dýrkun á hinu alslappa), sérstaklega þegar ég les mbl.is. Þar er lágkúran svo sannarlega oft í öndvegi. Mikið er Morgunblaðið orðið lélegt dagblað. Blaðið er orðið fullt af hreinu slúðri, hreinu kjaftæði um ekkert. Gersamlega menningarsnautt. Innan um þetta innantóma rugl eru fréttir sem maður á að taka alvarlega, um alvarleg málefni eftir ágæta blaðamenn. Er það Davíð Oddsson sem hefur ýtt blaðinu á þennan stað?

Ég hef svo oft hugsað þetta með mbl. sem ég las með áfergju þegar ég var barn og ungur maður. Ekki til að vera sammála pólitíkinni heldur vegna þess að þar var alvöru blaðamennska. Og þar var líka menningarlegur metnaður. Til var Lesbók með menningarefni. Rosalega er sorglegt að sjá blaðið.

Fra gönguleið Sørens Kirkegaard

ps. Mamma mín varði alltaf Davíð Oddsson, sama hvað hann tók sér fyrir hendur. Það var vegna þess að hún þekkti pabba Davíðs; Odd lækni sem mamma taldi einn alvandaðasta mann sem hún hafði hitt. En ég verð, þótt mömmu minni þætti það ekki gott, að vera ósáttur við störf Davíðs sem ritstjóra Morgunblaðsins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.