Sjaldan hef ég verið jafn gersamlega galtómur og andlaus eins og í gærkvöldi. Ég átti eitt óleyst verkefni þegar ég kom heim úr hinum langa Kirkegaard-göngutúr en það var eins og ég hafði gengið frá mér allt vit, alla glóru því ég sat eins og álfur fyrir framan tölvuna mína í minnst þrjá klukkutíma og væflaðist hugmyndasnauður og kraftlaus. Mér tókst með herkjum að leysa verkefnið sem beið mín en það var með harmkvælum og niðurstaðan var ekki sú sem ég hafði óskað.
Hér í smábænum mínum er samt einhvern veginn eitthvað líf að lifna eftir lengstu vetrarlok í sögunni. Mér finnst eins og sumarið ætli bara aldrei að koma; allt er þykkt, þungt og tíminn mjakast áfram og á erfitt með að komast úr sporunum í gegnum þessa seigu tímatjōrn sem vírusplágan hefur skilið eftir sig. Barnaskólarnir voru opnaðir í morgun að hluta og það eitt og sér vakti töluvert líf í bænum í morgun. Síðustu vikur hefur allt verið gersamlega dautt hér á morgnana. Þegar ég sá þetta margmenni úti á götunum fylltist ég ótta um að nú hrykki allt í baklás aftur, vírusinn næði að eflast aftur. Ég get ekki hugsað mér bakslag og framlengingu vírusótta.
Í gær urðu þó þau gleðilegu tímamót að við borðuðum kvöldmat úti á veröndinni í fyrsta skipti á árinu 2020.
En nú er morgunn, ég er sestur á vinnustofuna og pressa mig áfram með minni óaflátanlegu afkastakvöð. Það þýðir ekkert að vera í óstuði eða efast um tilgang og eða missa trú.
ps. Las dæmigerða frétt á mbl.is: „Heilt yfir er ég sáttur við tíma minn í Turin,“ segir Emre Can. Hvar ætli Emre Can hafi verið þegar hann spilaði fótbolta með Juventus? Í Turin? Hvað er Turin á íslensku? Aðalleikvangur Juventus er í Torino og sennilega hefur Emre Can verið sáttur við tíma sinn þar. Davíð Oddsson, þú sem ritstjóri mbl.is, nú finnst mér að þú þurfir að lyfta blaðinu þínu. Blaðið er svo frámunalega slappt. Meira að segja sú góða kona hún mamma mín hefði ekki verið ánægð með frammistöðu þína á ritstjórastól þótt þú sért sonur Odds læknis.