Espergærde. Örlög kanilbakarans

Ég ákvað í morgun að ég skyldi byrja daginn á að lesa um píanóleikarann herra Ryder. Þetta er ekki í fyrsta skipti á ævi minni sem ég valið að lesa um hann. Ég leita alltaf aftur og aftur til þessarar bókar sem fjallar um tónleikaferð tónlistarmannsins til ónefndrar borgar í Evrópu. Í þessari bók er hinn sérstaki hljómur, einn hljómur, líf hans og litir.

Líklega hef ég gripið til lesturs bókarinnar þar sem ég rakst á frásögn rithöfundar sem hafði ár eftir ár reynt að skrifa leikrit og fá þau sett á svið. Allt hans áralanga strit var til einskis því enginn vildi sviðsetja leikritin hans. Hann hafði gefist upp og var bæði peningalaus og niðurdreginn, vonsvikinn og ráðalaus. Honum tókst þó eftir nokkra leit að finna vinnu sem aðstoðarmaður í litlu bakaríi sem sérhæfði sig í uppskriftum þar sem kanill var meginbragðuppistaðan; kanilsnúðar, kanillengjur, kanilbollur …. allt sem hafði bragð af kanil. Þessi vinna hentaði rithöfundinum vel, bæði var hann sólginn í bakkelsi með kanil og vinnutíminn var afar hentugur – frá klukkan fjögur að morgni fram til hádegis – þar sem hann var af eðlisfari bæði kvöldsvæfur og árrisull.

Eftir sex mánaða vinnu hjá bakarameistaranum var hann sendur í sumarfrí. (Betra hefði hér verið að nota sögnina neyddur). Hann hafði ekki óskað eftir fríi. Heldur vildi hann vinna til að afla fjár og borga niður þær skuldir sem hann hafði stofnað til á meðan leikritunartímabili ævi hans stóð. En vinna var ekki í boði hjá kanilbakaranum því bakaríinu var lokað í sex vikur yfir hásumarið „þegar eftirspurn eftir kanilbakstri er í lágmarki,“ eins og bakarameistarinn sagði. Rithöfundurinn neyddist því til að taka sér sex vikna hlé frá deiggerðinni og ákvað að halda suður á bóginn og heimsækja aldraða frænku sína sem hafði boðið honum að setjast að – án endurgjalds – í litlum kofa í hennar eigu skammt frá Lime Regis í Dorset við strendur Suður Englands.

Rithöfundinum fór fljótt að leiðast dvölin og strandlífið átti ekki við hann. Hann saknaði kanilbakstursins, kanililmsins og hinna fjörugu morguntíma sem hann átti með bakarameistaranum og syni hans. Í stað þess að láta sér leiðast á ströndinni innan um fáklædda Breta og hávær börn þeirra ákvað hann að halda sig heima við. Hann skyldi skrifa skáldsögu um lífið á ströndinni við Lime Regis sér og einungis sér til skemmtunar. Þessa sögu skyldi hann einungis skrifa fyrir eigin augu. hann hafði fengið nóg af höfnunum, vonbrigðunum og sjálfsfyrirlitningunni sem þeim fylgdu. Honum datt ekki í hug að þessi skáldsaga sem átti eftir að gerjast á næstu sex vikum yrði bæði stærsta metsölubók ársins 1969, (ekki bara í Englandi heldur i gjörvöllum heiminum þar sem bækur eru lesnar), stórkvikmynd með frægum leikurum var gerð og meira en fimmtíu árum síðar yrði skrifað um hana á dagbókarsíðum síðhærðs Íslendings á glæsilegum vordegi í litlu strandþorpi á norðanverðu Sjálandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.