Espergærde. Hvað vantar?

Ég efast, ég efast og ég efast. Þetta má ekki misskiljast … ég er glaður. Ég bara leita, leita eftir leiðandi hönd sem getur vísað mér veginn. Stundum finnst mér þessi leit vera hálf örvæntingarfull; ég les bækur sem ég tel geti beint mér á réttan veg en ég er fljótur að afgreiða bækurnar, henda þeim út í horn … þetta er ekki sú rétta … ég les blaðagreinar …. viðtöl við fólk … nei, og nú síðast sá ég langan sjónvarpsþátt með Neil Gaiman sem er rithöfundur og hann talar um líf sitt við bókarskrif, hvernig allt byrjaði, þá erfiðleika sem hann hefur þurft að takast á við á ferlinum, þær efasemdir sem hafa hrjáð hann, gleðina við að finna hinn rétta tón … Þetta er góður þáttur og Neil Gaimann er bæði sjarmerandi og góður að miðla úr viskubrunni sínum.

Þetta var nú um stöðuna. Ég er samt glaður.

Ég hljóp í gær. Þetta er fimmta hlaup mitt á tíu dögum og í gær leið mér betur í hlaupinu en áður. Ég fann að smám saman er ég byrjaður að nálgast mitt gamla hlaupaformi. Það er enn langt í land.

Ég hitti ekki marga, ekki frekar en aðrir, á tímum kóróna. Það er helst að ég staldri við þegar ég mæti einhverjum á götu til að skiptast á nokkrum kurteisisorðum. Það er kannski hungur eftir huggunarríkum samskiptum við annað fólk sem mig vantar, kannski er það þessi einvera sem kveikir efann. En ég er samt glaður.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.