Undarlegt hvað ég get verið óstöðugur og látið ginnast auðveldlega. Ég stenst ekki minnstu freistingar. Eins og venjulega vakna ég við fyrstu morgunskímu og klukkan er varla orðin fimm þegar ég opna augun. Ég hafði því verið vakandi ansi lengi þegar ég rölti af stað til vinnustofunnar þegar klukkan var að verða átta. Enn er hér þvílík vorblíða að maður getur ekki annað en orðið léttur í sinni. Eins og oft áður fór ég krókaleiðir í átt til vinnustofunnar og af einhverjum ástæðum (kannski var ég bara svangur) var ég skyndilega staddur fyrir framan litla bakaríið við höfnina og án þess að ég fengi rönd við reist var ég búinn að panta eina súkkulaðibitaköku (cookie).
Satt að segja hálfskammaðist ég mín þegar ég kom út úr bakaríinu að hafa enn og aftur fallið í freistingar og íhugaði meira að segja að setja bakaríspokann inn á mig til að verða mér ekki til minnkunar ef ég mætti einhverjum sem ég þekkti. Þessi hugsun flögraði um hugann á mér og ég gekk hratt eftir Strandvejen í skínandi sól og logni. Ég var gersamlega í eigin huga þegar ég heyri kallað á mig:
„Hó, Zlatan!“
Ég leit upp og sá gamlan félag minn úr fótboltanum koma gangandi á móti mér á gangstéttinni hinum megin götunnar. „Varstu í bakaríinu?“
Skömm mín var mikil. „Já,“ svarði ég. Ég held að hann hafi skynjað vandræðaganginn hjá mér því hann bætti stríðnislega við: „Þú varst þó ekki að kaupa þér köku?“
„Jú …“
Hann hló. „Ég sá að þú varst eitthvað svo laumulegur með þennan bakaríspoka.“
„Ha, nei, nei ég keypti bara litla súkkulaðibitaköku … með morgunkaffinu … bara í tilefni dagsins.“
„Áttu afmæli?“
„Nei, ekki ég. Það er ekki ég sem á afmæli í dag … Shakespeare á afmæli.“
„Hver?“
„Enska leikskáldið, þú veist … Shakespeare.“
„Nú, ég þekki hann ekki …“