Espergærde. Auðmaður sendir bréf.

Bill Gates er auðmaður eins og það heitir þegar menn hafa á einhvern hátt aflað margra peninga í lífinu. Ekki eru allir hrifnir af auðmönnum og sjá þeir auðsöfnunina sem lýti á mannveru. Ég fylgist með Bill Gates því hann er gáfaður, og ég læt peningaeign hans ekki trufla mig hið minnsta. Hann má mín vegna eiga alla heimsins peninga, mér gæti ekki verið meira sama. Í mínum augum er hann einn af þeim mönnum sem maður gæti tekið sér til fyrirmyndar vegna afstöðu hans til lífsins og hvernig hann nýtir gáfur sínar. Ég sá um daginn heimildarþátt um hann og ég fékk enn meira álit á manninum. Hann er séní, klaufi í samskiptum við annað fólk, skaphundur en með gífurlega hraðvirkan heila.

Í gær sendi Bill Gates mér fréttir. Hægt er að gerst áskrifandi að vangaveltum hans. Einu sinni í mánuði eða þar um bil sendir hann bréf eða tengil inn á heimasíðu sína þar sem hann segir frá því sem hann hefur tekið sér fyrir hendur og því sem hann hugsar um. Í gær hafði Bill Gates skrifað langt, langt bréf um þann vanda sem steðjar að þjóðum heims vegna kórónafaraldursins. Þetta var greindarleg umfjöllun um sjálfan vírusinn, um bæði efnahagslegar- og samfélagslegar afleiðingar vírussins og um hvað þarf að gera til að koma öllu í lag aftur. Ég eyddi nánast heilu kvöldi í að lesa greiningar auðmannsins.

Í nótt dreymdi mig svo auðvitað kórónavírusinn og að ég var smitaður og orðinn hundveikur. Þetta var vondur draumur og mér leið illa í svefninum. Ég held að ekki verði komist hjá því að hugsa um þennan vírus, sama hvað maður reynir. Ég geri mitt besta til að sökkva mér ekki ofan í fréttalestur um vírusinn en samt er ég sífellt að vonast efir góðum fréttum. Bill Gates talar alltaf um „heimfaraldurinn fyrsta“ eins og fyrri heimstyrjöld og seinni heimsstyrjöld.

Annars fara margar mínútur af lífi mínu í að finna út úr því sem ég er að skrifa. Ég er búinn að skrifa meira en 100 síður í nýrri bók en ég fann að ég þurfti að breyta sjónarhorni; frá fyrstu persónu frásögn yfir í þriðju persónu. Þetta breytir öllu og ég þarf að skrifa allt aftur. Ég hef því lesið bækur með fyrstu persónu frásögn og borið saman við sögur með þriðju persónu frásögn. Ég skoða tæknina því ég er bara byrjandi þótt ég hafi lesið margt um ævina. Það er bara annað að skrifa sjálfur en að lesa. Ég sveiflast milli þess að nota einfalda rödd þar sem ekki er mikill leikur í textanum – allt gengur frekar línulega fyrir sig – og flóknari frásagnar þar sem langir útúrdúrar eru leyfðir. Ég hugsa svo mikið að ég er næstum orðinn hræddur við að skrifa áfram. Ég hef tilhneigingu til að fresta sjálfum skrifunum og tel mér trú um að ég þurfi fyrst að lesa eitt eða annað. Það er sennilega vegna þess að mér finnst hunderfitt að skrifa. Svona er nú það.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.