Ég var svo viss um að eitthvað stórkostlegt mundi gerast í gær. Ég taldi mér trú um að eitthvað lægi í loftinu sem mundi breyta öllu, gleðja mig ósegjanlega eða setja eitthvað unaðslega skemmtilegt í gang.
Þetta var nú sú hugsun sem yfirgnæfði allt annað í gær. Um leið og ég reyndi að einbeita mér að því að vinna hafði ég annað augað á tölvupóstinum mínum því það var þaðan sem ég taldi öll tilboðin mundu berast. Ef ég á að segja alveg eins og er komu þrír tölvupóstar eftir klukkan 09:00 í gærmorgun þegar ég fékk þessa flugu í höfuðið:
1) frá tannlækninum sem vildi fá mig í skoðun þann 6. maí (það er ef ég væri heill heilsu),
2) einn tölvupóstur kom frá bandarísku bókakeðjunni Barnes & Nobles til að reyna að lokka mig til að kaupa enn eina bók,
3) og einn póstur kom frá HBO Nordic til að spyrja mig hvort ég væri ekki áhugasamur um að gerast áskrifandi hjá þeim. Ég fengi 14 daga ókeypis.
Þetta var nú allt það stórkostlega sem gerðist þennan dag.
1) Ég fékk ekki tilboð frá Hollywood um kvikmyndasamning,
2) Zlatan hafði ekki sambandi við mig til að biðja mig að koma út að leika með bolta (þótt hann sé fluttur hingað hinum megin við sundið)
3) ekki einu sinni var ég beðinn að koma í garðheimsókn og drekka bjór í góða veðrinu. Það gerist ekkert og ég er orðinn eirðarlaus.