Espergærde. Og þau komu, góðu tíðindin.

Í fyrra eða árið 2019 skrifaði ég bók sem kom út síðastliðið haust. Það kom bæði mér og mörgum öðrum nokkuð á óvart að þetta gæti ég afrekað. Skrifað heila bók. „Þetta gat hann þá,“ skrifaði eldri kona hér í bæ í skilaboðum til vina sinna. Í gær bætti ég inn færslu í dagbókina mína (kaktusinn) um þá tilfinningu sem helltist yfir mig í fyrradag að eitthvað stórkostlegt lægi í loftinu, eitthvað sem ætti að breyta stefnu lífs míns eða gleðja mig verulega.
En ekkert gerðist.
Ég fékk þrjú þýðingarlaus tölvubréf, hvert öðru áhrifaminna. Ég hafði sætt mig við að ég fengi ekki þessi áhrifaríku skilaboð sem mig hafði dreymt um að væru í pípunum á leið til mín. Í stað þess að bíða og vona hafði ég klætt mig í stuttbuxur, horft niður á fótboltavöðvana á lærunum og reimað á mig í hlaupaskó. En áður en mér hafði tekist að ræsa hlaupa-appið mitt (runkeeper) smeygðu sér inn í símann minn skilaboð frá Réttindastofu Forlagsins, sjálfum réttindastjóranum Völu. Þarna stóð ég á stéttinni fyrir utan heimili mitt og beið þess að runkeeper væri tilbúinn að mæla hlaupalengd og tíma þegar þau komu gleðitíðindin sem ég hafði beðið eftir. Bókin (Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins) verður þýdd á ensku. Yo! Ég varð svo glaður yfir þessum fréttum að ég sveif eftir götum bæjarins og setti nýtt 5 km hlaupamet (það er í þessari nýju hlaupahrinu). Þótt hraðinn sé ekki neitt gífurlegur bætti ég hraðametið svo ég er á uppleið.

Þessi gleðitíðindi komu sannarlega á heppilegu andartaki í lífi mínu, bæði vegna þess að þau urðu þess valdandi að ég setti hlaupamet en ekki síður vegna þess að stundum finnst manni skrifdundið algerlega mislukkað. Og þá er gott að fá svona hressingu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.