Espergærde. Lágt muldur …

Í tíðindaleysinu síðustu daga hefur eins og svo oft áður geisað stormur inni í mér. Hinn innri stormur, gæti maður líka kallað óróann. Í tilraun til að finna frið og ró settist ég niður í fína hægindastólnum mínum hér á vinnustofunni í morgun og tók fram mína bleiku minnisbók og setti mér skorður, bjó til ramma svo ég hefði eitthvað til að halda utan um mig. En síðustu vikur hef ég verið eins og galinn maður … ég leita og leita eftir lausnum. Eitt af því sem ég tel mér trú um er að ég þurfi að lesa einhver ósköp til að fá inspiration … og ég byrja á einni bók og eftir 100 bls eða 200 bls lestur finn ég að það er ekki þessi bók sem veitir mér hugarró og inspiration. Þá tek ég næstu og byrja að lesa og svona gengur þetta … ég hoppa á milli bóka og á sama tíma á sér stað þetta eilífðar samtal við sjálfan mig. Sem sagt fullkomin skortur á ró.

Það var þess vegna sem ég settist niður á hægindastólinn í morgun. Grái hægindastóllinn var keyptur sérstaklega fyrir vinnustofuna því mig vantaði stað til að koma mér þægilega fyrir á meðan ég las. Stóllinn stendur í einu horni herbergisins, en þar sem herbergið er afar lítið, mesta lagi 20 fm. sit ég nánast út í glugganum sem snýr að götunni. Einu sinni var vinnustofan barnafataverslun, einu sinni var vinnustofan skóverkstæði og einu sinni var vinnustofan vinnustofa fyrir tvo hönnuði (hönnuðu lampa, stóla, borð, hnífa og margt fleira) Þess vegna er glugginn, stóri glugginn sem snýr að götunni, sýningargluggi. Þegar ég sit og les er ég eins og útstilling í sýningarglugga. Hér ganga ekki margir framhjá en á hálf tíma fresti á einhver leið hjá og þeir horfa forviða á manninn í glugganum sem les í bók.

Í leit að nýju jafnvægi ákvað ég að setja mér ramma, eða takt fyrir vinnudaginn til að finna aftur mína eðlislægu ró. Ég úthluta mér ákveðnum tíma (bæði hvenær dags og hve lengi) til að sinna þeim vinnuþáttum sem dagurinn hjá mér inniheldur. Sem dæmi skrifa ég dagbók dagsins í 30 mínútur eftir að ég hef notað fyrsta klukkutíma vinnudagsins til að lesa og að því loknu punkta ég niður þau atriði sem mér finnst eigi heima í minnisbók. Það geta verið vangaveltur frá deginum á undan, eitthvað sem ég hef heyrt eða lesið …

En að öðru: það er hlaupadagur í dag. Í fyrradag setti ég nýtt hraðamet og strax i morgun þegar ég mundi að ég skyldi hlaupa í dag fór ég að hafa áhyggjur af hlaupinu, hvort ég gæti haldið sama hraða og síðast. Svona virkar hugur minn þessar síðustu vikur, eilíft muldur í bakgrunninum.

ps. Á föstudagskvöld í síðustu viku daginn fyrir dauða PO Enquist skiptist ég á orðum við félaga minn á Íslandi. Ég hafði eitthvað verið að spekúlera í fyrstupersónu frásögn vs þriðjupersónu frásögn og fékk þetta svar frá félaga mínum: „Enquist skrifaði sína sterku sjálfsævisögu í þriðju persónu, það er, skrifaði um sjálfan sig í þriðjupersónu. Byrjaði þó með hefðbundna fyrstu persónu, en gafst upp eftir 80 bls, gekk bara ekki upp, það var svo margt sem hann komst ekki að, eða þorði ekki að fara alla leið … fyrr en honum datt í hug að breyta í 3 p frásögn. Þá gat hann, þá þorði hann. Og byrjaði upp á nýtt.“
Og ég svaraði: „Æ hvað heitir hún aftur, ævisaga Enquists? Ég hef ekki lesið hana.“
Og hann svarar: „Et andet liv, stór bók, á stærð við A tale of love and darkness, sjálfsævisaga Amos Oz, miklar sólir, þessar bækur.“

Og svo fór ég að lesa Et andet liv sem stóð í hillunni hjá mér. Ég skil ekki af hverju ég hef aldrei lesið bókina. Daginn eftir dó PO Enquist. Það fannst mér vont.

ps. Er enn til sælgæti á Íslandi sem heitir Staur? Allt í einu rifjaðist upp fyrir mér auglýsing sem hljómaði einhvern veginn svona: „Hann er með ferlega langan háls þessi gaur (eða segir þulurinn staur?).“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.