Það lá í loftinu og hefur lengi legið í loftinu að önnur stóra bókabúðakeðjan hér í Danmörku, Arnold Busck, færi á hausinn. Og svo gerðist það í gær. 29 búðum lokað, meðal annars stóra flaggskipinu í Købmagergade. Þetta er mikið áfall fyrir bókabransann, útgefendurna og höfundana. Lokun Arnold Busck svarar til að Eymundssyni yrði lokað á Íslandi og kannski er heldur ekki langt í það. Ekki að ég viti nokkuð um stöðu Eymundsson en rekstur bókabúða virðist að minnsta kosti ekki blómstra á Íslandi.
Þessi lokun er afleiðing af þeim breytingum sem hafa orðið á útgáfu og lestri bóka, menningarneyslu almennings og þeirri andans doða sem er fylgifiskur stafrænu byltingarinnar. Grundvöllur fyrir bókabúðarekstur er brostinn. Skjáheimurinn er auðveldur og sefjandi. Þetta er ekki bara klisja, þetta sést alls staðar – allar rannsóknir sýna að tímanum sem varið er yfir skjá eykst ár frá ári – og sömu rannsóknir sýna að afleiðingarnar eru aukið eirðarleysi og minnkandi einbeitingarhæfni. Og afleiðingin af því er að auðveldara er að sökkva sér í hinn sefjandi og viðnámslausa heim skjásins – > eirðarleysi eykst … Þetta er spírallinn sem margir benda á og það virðist hvorki vera að hægt að stoppa né hægja ferðina – og botninum er ekki náð. Þótt sumir kynnu að halda að ekki sé mögulegt að sökkva dýpra eftir að raunveruleikasjónvarpshetjan Donald Trump varð valdamesti maður heimsins.
Líf bókabúðar Arnold Busck skapar í sjálfu sér kannski enga andans risa og dauði Arnold Busck er kannski heldur engin katastrófa, bara sjálfsögð afleiðing þess doða og áhugaleysis sem hefur lagst yfir hinn vestræna heim eins og illgresisdúkur. Fall Arnold Busck, sem hluti af þessari þróun, er auðvitað bara smámál í stóra samhenginu. Afleiðingarnar fyrir útgefendur og höfunda eru að koma í ljós þessi misserin. Tekjur höfunda dragast verulega saman og forlögin beina sjónum sínum enn frekar að bókum sem auðvelt er að selja (krimmar eru enn útgefnir). Nýjasta útspil Gyldendal hér í Danmörku er að gefa bækur einungis út sem hljóðbækur og e-bækur, sleppa allri prentun og dreifingu á bókum í bókabúðir.
Með hægum dauða bókarinnar eykst ekki bara andans fátækt, minnka ekki bara höfundalaun rithöfunda heldur verða færri og færri bækur gefnar út. Höfundar sem hafa fengið bækur sínar útgefnar ár eftir ár – sem hefur réttlætt tilveru þeirra þótt bækurnar hafa ekki selst – detta út af útgáfuáætlun forlaganna. Smám saman verður ástæðulaust fyrir ríkið að veita styrkjum til rithöfunda. Til hvers? Ef afurðirnar eru einskis virði. Bókabransanum á Íslandi er enn haldið á lífi með öndunarvél, styrkir frá ríki borga upp tap forlaganna og greiða rithöfundum stærsta hlut launa sinna. Ætti kannski að nota öndunarvélarnar til að halda öðrum á lífi en þessu vesalings bókafólki? Öndunarvélar eru af skornum skammti.
Ég hef ekki fyrir vana að vera svartsýnn – ég hef verið barnalega bjartsýnn allt mitt líf og fengið að heyra það – en satt að segja finnst mér ég vera tegund í útrýmingarhættu. Þeim fækkar óðum sem finnst mikilvægt að halda úti menningarstarfsemi (lesendum fækkar, áhorfendum að leikritum fækkar, bíógestum fækkar, lesendum dagblaða fækkar … ) og kannski er ekki alveg út í hött spurningin hvort menn vilja gera eitthvað til að bjarga þessu dýri úr bráðri útrýmingarhættu. Heldur ekki spurningin hvers vegna ætti að bjarga þessu dýri, skiptir líf þess einhverju máli? Hefur heimurinn gagn af þessari skepnu?