Espergærde. „Það er svo mikið ég!“

Síðasti dagur apríl og afmælisdagur mömmu í dag. Eflaust hefði hún bakað pönnukökur hefði hún lifað. Kannski fæ ég Núma, pönnukökusérfræðing heimilisins, til að hræra í pönnukökur í tilefni dagsins. Minna get ég ekki gert til að halda þennan dag hátíðlegan.

Það gerðist í gær, og það er fátítt núorðið, að ég hitti kunningjakonu mína úti á götu. Hún er þekkt hér í bænum fyrir að hafa skrifað erótískar smásögur sem Gyldendal gaf út og vöktu töluverða athygli fyrir hispursleysi sitt. Bók hennar var eiginlega forgöngubók fyrir bylgju af svokölluðu erótískum bókum eða húsmóðurpornói eins og vondir menn kölluðu þessa tegund bókmennta. En bók hennar vakti svo mikla athygli á landsvísu að hún varð ekki bara þekkt hér í bænum heldur líka um allt land og var tíður gestur í kvöldþáttum sjónvarpsins á tímabili.

Þessi kunningjakona mín, erótíska skáldkonan, er sjálf óvenju hispurslaus í framkomu. Hún talar áður en hún hugsar, sem er stundum ákveðinn léttir, en getur líka verið dálítið íþyngjandi í hennar tilfelli.

En ég mætti henni sem sagt í gær úti á götu. Hún kom gangandi á móti mér með innkaupapoka frá tískuvöruverslun í hvorri hönd. Gönguleg hennar er sérstakt og – ímynda ég mér – kannski einkennandi fyrir persónu hennar. Hún gengur hratt og beint, ber höfuðið hátt og skimar í sífellu í kringum sig eins og hún vilji ekki missa af neinu. Þegar hún varð mín vör breyttist andlit hennar í eitt skínandi bros og ég óttaðist eitt augnablika að hún ætlaði að hlaupa á móti mér til að kasta sér í fangið á mér. Nei, það gerði hún ekki, en hún greikkaði sporið og brosið á andlitinu varð æ bjartara.

„Ef þessi fjandans tveggja metra regla væri ekki í gildi hefði ég hoppað upp á þig og gefið þér knús bæði með höndum og fótum,“ sagði hún skellihlæjandi.
Ég viðurkenni að ég þakkaði í hljóði fyrir tveggja metra regluna.
„Þetta er orðið svo öfgafullt, finnst þér ekki?“ hún leit á mig en beið ekki eftir svari. „Meira að segja maðurinn minn heldur að þessi regla gildi inn á heimilinu og það hentar mér ekki og mínum þörfum, ef þú skilur,“ og svo skellihló hún.

Ég tók eftir að hún var klædd í bleikan bol með japanskri áletrun, stóru japönsku tákni sem náði yfir allt brjóstið. „Hvaða skilaboð eru þetta?“ spurði ég og benti á táknið.
„Já. Gott þú spyrð. Æ, þú ert svo sætur að taka eftir svona. Þetta er japanskt tákn og stendur fyrir „draum“ eða „að dreyma“ og það er svo mikið ég!“

Eftir töluvert langa útlistun á hvaða merkingu draumur eða að dreyma hefði í hennar tilviki var ég farinn að ókyrrast því hún hélt langa tölu um annað japanskt orð tokimeku sem vísar víst til þeirrar kitlandi tilfinningar sem bærist innra með manni þegar eitthvað vekur mikla ánægju. „Ég finn fyrir andlegri tengingu – ó, fyrirgefðu – við ákveðna hluti sem vekja þessa tilfinningu.“

Ég rauf þetta samtal okkar, því ég þurfti að flýta mér annað (og það var alveg rétt). Við kvöddumst, hún með orðunum „æ, þessi fjandans tveggja metra regla.“

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.