Ég las orðið „fejlangst“ í viðtali við einhvern náunga sem framleiðir sjálfvirkar kaffivélar. Í viðtalinu gumar hann af því að bæði Apple og Google, Nasa og Tesla kaupi þessar vélar af sér. Vélarnar geta meðal annars búið til – án fyrirhafnar – kaffidrykkinn cappuchino. Hann tekur það fram í samtalinu að hann hafi aldrei þjáðst af „fejlangst“. Mér fannst orðið svo gott – fejlangst – en fann ekkert samsvarandi orð á íslensku. Hræðslan við að mistakast.
Ég spilaði fótbolta sem strákur og ég þjáðist aldeilis af þessum ótta – óttanum við að gera mistök, fejlangst. Ég var markvörður þegar ég var lítill og mér fannst ábyrgð mín á gengi liðsins míns – Knattspyrnufélagsins Fram – alveg óendanleg og að það væri bókstaflega í mínum höndum að við félagarnir ynnum leiki. Í búningsklefanum fyrir kappleiki var ég frávita (og ég meina það) af angist og vonaði heitt og innilega að dómarinn mundi ekki mæta – það gerðist sem betur fer reglulega – og leikurinn yrði flautaður af án þess að hann yrði leikinn. Þannig slyppi ég við undan þessari miklu angist, hræðsluna við að gera mistök. Neyð mín var svo mikil að ég man eftir sjálfum mér meðal samherja minna í keppnisbúningnum inni í búningsklefa biðja bæn í hljóði: Góði Guð, láttu dómarann hafa gleymt leiknum.“