Espergærde. „hlauparinn sem aldrei gekk“

Japanski rithöfundurinn Haruki Murakami er mikill langhlaupari, maraþonhlaupari og hefur meira að segja hlaupið upprunalega maraþonhlaupið frá grísku borginni Marathon til Athenu. Fyrir nokkrum árum skrifaði hann ansi skemmtilega bók um að hlaupa: Það sem ég tala um þegar ég tala um hlaup, sem enginn áhugamaður um hlaup og bókmenntir ætti að láta fara framhjá sér.

Ég minnist á þetta vegna þess að í bókinni segir Murakami á einum stað að hann vildi vera þekktur fyrir að vera „hlauparinn sem aldrei gekk“. Sama hversu þreyttur hann var, þjáður eða uppgefinn, skyldi hann bara aldrei ganga. Um þetta hugsaði hann þegar hann var í New York maraþoninu þar sem er víst nokkuð brött brekka upp langa brú sem tekur að sögn töluvert á hlauparana og að Murakami læddist sú hugsun að kannski ætti hann bara að ganga.

Ég hljóp í gær og var frekar þreyttur þegar ég lagði af stað. Ég hafði í gærmorgun gengið sjö kílómetra, flutt þunga hluti upp og niður tröppur frá herberginu hans Davíðs niður á gestaherbergið, skrúfað sundur skápa, hillur og borð til að geta flutt niður, málað veggi, glugga og dyr og síðan, undir kvöld, lagði ég stað til að hlaupa. Ég fann strax að ég var þungur og hlaupin upp langa brekku við Hornbækvej var pína og þá datt mér þessi Murakami hugsun í hug: „aldrei að ganga“. Ég geng auðvitað aldrei þegar ég hleyp og ég berst alltaf fyrir nýju hraðameti. Í gær náði ég næstbesta tíma á 5,2 km hlaupi síðan ég hóf á ný að hlaupa svo hlaupatúrinn var þrátt fyrir allt ekki svo lélegur.

Bókina hans Murakami las ég á ferð til Prag; golfferð með félögum mínum úr fótboltafélaginu hér í Espergærde. Sjálfur spila ég ekki golf, og hef aldrei gert, en ferðina fór ég samt því ég var nýbyrjaður að spila fótbolta með félaginu og hélt að þetta væri kannski leiðin til að kynnast liðsfélögum mínum betur. En ég var svo upptekinn af bókinni minni í Prag að ég freistaðist til að stinga hópinn af, gekk mína eigin leið og settist inn í garð til að lesa bókina. Þetta fannst hinum nýju félögum mínum mjög furðuleg hegðun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.