Hørsholm. Að halda úti bókmenntasíðu

Fyrir nokkrum dögum átti ég samtal við enskan útgefanda sem ég kynntist þegar ég gaf sjálfur út bækur á Íslandi. Við höfum haldið sambandi í öll þessi ár. Vinur minn, útgefandinn, hefur innbyggðan frumkvöðlakraft og vilja til að setja nýja hluti í gang. Einu sinni safnað hann saman yfir þrjátíu útgefendum frá þrjátíu löndum heima hjá sér í London til að standa að sameiginlegu alþjóðlegu útgáfuverkefni (útgáfu á svokallaðri MYTH-seríu sem varð að raunveruleika. Argóarflís Sjóns er hluti af því verkefni).. Það er ekki öllum gefið að setja slíkt í gang og safna jafn mörgu fólki í kringum sig til að sinna sameiginlegu verkefni.

En við áttum sem sagt samtal um daginn þar sem hann viðraði þá hugmynd að reyna að setja á fót alþjóðlega vefsíðu (á ensku) þar sem menn frá mörgum löndum hjálpuðust að við að halda uppi bókmenntaumfjöllun. Í hverju landi væri einn sem miðlaði efni frá sínu heimalandi, Um það bil þrjátíu greinar á mánuði. „Hröð endurnýjun, líf og orka er lykillinn að lífi svona síðu,“ eins og hann sagði. Í raun var þetta sama hugmynd og Bókaskápurinn byggði á (hann vissi svo sem ekkert um Bókaskápinn) nema þetta átti að vera sameiginlegt alþjóðlegt átak til að búa til „stóra, skemmtilega, uppörvandi, hressilega, vandaða heimasíðu um bókmenntir þar sem fréttir og umfjöllun áttu fyrst og fremst að vera áhugafólki til skemmtunar.“ Hér áttu ekki að vera langar fræðigreinar sem höfðuðu fyrst og fremst til bókmenntafræðinga. Heldur áttu greinarnar að höfða til hins „almenna bókmenntaáhugamanns; viðtöl, greinar og umfjöllun um strauma og stefnur í bókaútgáfu, bóksölu og bókaskrifum.“

Hugmyndin var sú að síðan væri bæði alþjóðleg og innlend þannig að innlendar greinar birtust á heimasvæði en svo væri hægt að fara á alþjólega svæðið þar sem allar greinar væru birtar á ensku. Þetta var aldeilis metnaðarfullt plan fannst mér.

Ég sagði honum frá Bókaskápnum og reynslu minni af honum. Vinur minn hafði haldið að hægt væri að stóla á að áhugafólk kæmi hlaupandi með eigið framlag og það þyrfti bara einn í hverju landi til að halda utan um efni til birtingar. Allt ætti að vera unnið í sjálfboðavinnu til að byrja með. Vinur minn er enn bjartsýnn og talar við félaga sína í útgáfubransanum og kannski verður eitthvað úr þessu.

Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða ekki, en í gær hafði annar maður, íslenskur, samband við mig og harmaði að Bókaskápurinn væri enn og aftur lokaður. Hann vildi að settur yrði saman hópur sem sæi um að halda bókmenntasíðu opinni. Ég vísaði hugmyndinni ekki á bug en benti manninum á það krefst orku, tíma og áhuga að halda svona bókmenntasíðu opinni. Það getur vel verið að við Jón Karl opnum Bókaskápinn aftur þegar við höfum aftur safnað kröftum. Stundum lásu allmargir fréttirnar í Bókaskápnum svo einhverjum skemmti þetta framtak. Við sjáum til.

psDagbók dagsins er skrifuð á bílaverkstæði í Hørsholm.

pps. Benda má á Lestrarklefann sem nokkuð vel heppnaða heimasíðu sem haldið er úti af atorkusömu áhugafólki um bókmenntir. Aldeilis dugnaður á þeim bæ.

dagbók

2 athugasemdir við “Hørsholm. Að halda úti bókmenntasíðu

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.