Espergærde. Þríburarnir

Ekki veit ég hvað fær mig til að dreyma þau Jakobsbörn aftur og aftur; ég sem þekki þau ekki neitt og hef held ég bara aldrei talað við neitt þeirra. En Katrín, Sverrir og Ármann, sem birtast mér sem þríburar, hafa ítrekað heimsótt mig í svefni. Mér er þetta eiginlega algerlega óskiljanlegt. Ég leiði nánast aldrei hugann til þessarar góðu systkina í vöku.

Í fyrra las ég bók eftir Samanta Schwederlin, Bjargræði í stórgóðri þýðingu Jóns Halls Stefánssonar. Ég var að vísu ekki í sérstöku stuði fyrir bókina þegar ég las hana en höfundurinn Samanta, sem er argentínsk, hefur vakið athygli mína. Réttara sagt ekki bara athygli mína heldur virðist hún vera alls staðar nú um stundir. Maður fer varla inn á bókmenntasíðu án þess að rekast á nafn hennar. Furðulegt hvernig athygli sogast að fáum höfundum, hér rétt áður en Olga Tokarczuk fékk Nóbelsverðlaunin var hún alls staðar en nú virðist hún hafa fallið í skuggann eftir að henni hlotnaðist hin stóru verðlaun. Eiginlega langar mig til að heimsækja Olgu til þorpsins hennar Walbrzych í Póllandi.

En það sem ég vildi sagt hafa. Í einu af þeim samtölum sem ég las við Samanta segir hún frá því að sá lesandi sem hún þráir mest að lesi bækur hennar sé norski smásagnahöfundurinn Kjell Askildsen. Þótt hún óttist að hann falli ekki fyrir sögum hennar þar sem þær séu of orðmargar, þar gerist of margt og í þeim sé of mikið af öllu andstætt sögum hins knappa Askildsen. En þarna fékk Samanta að minnsta kosti heillað mig.

Ég eignaðist nýja skó í gær og nú á ég þrenn skópör sem er nýtt met. Aldrei hef ég átt svo marga nothæfa skó á sama tíma. Eina rauða, eina svarta og eina hvíta. Ég tók mynd af skónum mínum í morgun.

ps. Ég held enn út að hlaupa annan hvern dag og tími minn verður æ betri. Nú er ég 2 mínútum og 14 sekúndum fljótari að hlaupa 5,2 kílómetra en þegar ég hljóp fyrst af stað fyrir þremur vikum. Tíminn er ekki til að hrópa húrra fyrir, 5:15 min pr. kílómeter en ég verð smám saman hraðari. Og nú byrjar úti-tennistímabilið aftur á morgun.

pps. Þegar ég skrifaði „eina skó“ skrifaði ég ósjálfrátt „einar“ og hugurinn fór strax á ferðalag (furðulegar tengingar sem verða í höfðinu á mér) og fór að hugsa um ágætan bekkjarfélaga minn úr barnaskóla sem heitir Einar (ég hef ekki hitt hann eftir að leiðir okkar skildu í níunda bekk) en hann var alltaf kallaður Tvennar. Þetta var nú standardinn á kímnigáfu okkar bekkjarfélaganna í Álftamýrarskóla.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.