Síðasti dagur á vinnustofunni. Ég flyt skrifborðið í dag. Í sjálfu sér hefur þetta verið ágæt vinnustofa, að vísu ísköld á veturna og kannski ekki svo notaleg að því leyti. En nú er ég búinn að innrétta skrifstofu upp á lofti á Søbækvej (útsýni yfir Eyrarsund og yfir til eyjunnar Hveðn) og Davíð hefur flutt niður og fengið unglingaherbergi. Ég á ekki eftir að sakna vinnustofunnar ægilega. Þetta er sem sagt ekki tregablandin kveðjustund.
Að flytja heim er ágætt þótt helst vildi ég hafa vinnustað utan heimilisins. Það hefði verið fínt ef hér væri kaffihús þar sem hægt væri að vinna hluta úr degi eða bókasafn sem hefði vinnuaðstöðu. En því er ekki að heilsa hér í þessum ágæta smábæ. Kaffihús eru hér, en ekkert af því tagi þar sem hentugt er að sitja og vinna eins og til dæmis Kaffi Vest.
Minn helsti vandi verður að ég hitti of fáa og einangrunin verður of mikil. Sérstaklega á þessum kórónatímum þar sem enginn kemur í heimsókn og ekki ferðast maður til annarra landa. Ekki get ég flogið til Íslands þar sem maður finnur ræturnar og tenginguna við alheiminn og umhverfið í kringum sig. Yo!