Ég skrifa dagbókina í dag frá nýrri vinnustofu og „ugens bog“ (Bittu slaufur, Einar Áskell) hefur fengið nýjan stað; hér á hillu mér við hlið.
Í síðustu viku þegar einn þekktasti rithöfundur Dana frétti af gjaldþroti stærstu bókabúðarkeðju Danmerkur, Arnold Busck, setti hann hljóðbókina sem hann hlustaði á (frá streymisveitunni Storytell/Mofibo) á pásu, leit upp og sagði: „Ég er hreinlega svo sjokkeraður yfir því að Busck sé farinn á hausinn að ég verð að slökkva á Storytell hljóðbókinni sem ég var að hlusta á til að bölva öllum þeim sem eiga sök á að þessi fína bókabúðakeðja er komin í þrot.“
Þetta sagði hann auðvitað í gríni en um leið er þetta kaldhæðnisleg kveðja til þeirra sem halda að þeirri stafrænu þróun sem er hafin með streymisveitum bæði fyrir kvikmyndir, tónlist og bækur verði stöðvuð. Sala á prentuðum bókum fer minnkandi en um leið fjölgar þeim sem hlusta á hljóðbækur hjá Storytell eða lesa e-bækur.
Ég nefni þetta hér því ég heyri að einn af forsvarsmönnum Pennans Eymundsson reynir að gera Storytell tortryggilegt fyrirtæki með skrifum í Morgunblaðið. Bendir hann meðal annars á að Storytell á Íslandi sendi móðurfyrirtæki Storytell í Svíþjóð stórar fjárhæðir og greiði þar með minni skatt á Íslandi. Það er kannski allt rétt. En málið er bara að vandi Pennamannsins er í sannleika sagt ekki að Storytell sendir peninga til Svíþjóðar heldur að bóksalan hjá Pennanum Eymundsson blæðir fyrir þá nýju tilhneigingu hjá þeim sem hafa áhuga á bókmenntum að sækja bækurnar hjá Storytell (hljóðbækur) en ekki hjá Pennanum. Þess vegna er þessi barátta Pennans að gera Storytell tortryggilegt svo hjáróma og það fer í taugarnar á mér þegar menn geta ekki kallað hlutina réttum nöfnum. Þar fyrir utan er baráttan gegn þeirri þróun að fleiri velja streymisveitur til að uppfylla bókmenntaþarfir sínar bara töpuð. Sorry, Penninn-Eymundsson.
Ég vildi að ég gæti gefið Pennanum-Eymundsson nýtt hjarta og leggja fyrirtækinu nýjan anda í brjóst. Ég vildi að ég gæti tekið steinhjartað og gefið því hjarta fullu af brennheitu blóði.
ps. Ég er kominn á nýja vinnustofu (sjá mynd)
pps. Ég hef tæmt gömlu vinnustofuna (sjá mynd)
