Í þessari viku átti ég að vera í París. Ég hafði hlakkað til að vera viku í hinni frönsku höfuðborg. (Og furðulegt að ég fékk tölvupóst í morgun sem hljómaði einhvern veginn svona: „Gekk eftir Öldugötu í blankalogni og sól … og ég saknaði Parísar.“ Það eru sem sagt fleiri en ég sem sakna Parísar. En ég komst auðvitað ekki til Parísar (átti að fljúga á þriðjudag), engin flug og vesen með landamærin. Ég varð því að aflýsa ferð minni. Batmaníbúðin beið mín hlý og með opin faðm. Skrifborðið á sínum stað, kaffivélin á sínum stað og hátalarinn á sínum stað (ég var meira að segja búinn að ákveða hvaða lag ég ætlaði að byrja á að spila þegar ég kæmi og væri búinn að setja ferðatöskuna á töskuborðið inni í svefnherberginu. Já, hvaða lag er það? Jú, það er Feeling good með Nina Simone. Það á vel við þegar maður kemur í Batmaníbúð.
En ég var líka búinn að gera alls konar ráðstafanir og mæla mér mót við fólk sem ég annars geri aldrei þegar ég er í París. En í kvöld, sunnudagskvöld, hafði ég ákveðið að hitta ágætan mann sem ég hef einu sinni áður hitt þegar ég var í París. Síðast bankaði ég bara upp á hjá honum og hann tók vel á móti mér, bauð mér bæði upp á volgt hvítvín og franskar sígarettur. En nú vorum við búnir að mæla okkur mót. „Sunnudagskvöld er fínt, þá er ég búinn að hlusta á messu og er trúarlega uppnuminn,“ hafði hann sagt í svarbréfi sínu. Ég hafði boðið honum að koma til vina minna á brúna veitingastaðnum. Hann var spenntur, sagði hann. Hann langaði að hitta vini mína á brúna veitingastaðnum. „Þú skalt samt ekki halda að ég verði skemmtilegur,“ sagði hann í svarbréfi sínu. „Ég er hrútleiðinlegur um þessar mundir. Ég er kominn langt með svo klikkaða bók að ég get ekki hugsað um annað og þegar svo er komið fyrir mér er erfitt að vera í kringum mig. Ég gef þér, gamli íslenski forleggjari, tækifæri á að aflýsa þessu stefnumóti,“ skrifaði Michel Houellebecq í tölvupósti til mín í lok febrúar. Ekki hafði okkur grunað að þessi vírus ætti eftir að hindra fund okkar. En í fyrradag skrifað ég til hans og aflýsti stefnumótinu sem átti að vera í kvöld (ekki vegna þess að ég héldi að hann yrði óbærilega leiðinlegur). „Kæri Michel. Vírusinn hindrar fund okkar. Þú skilur. Sunnudagskvöld hefði verið gott. Gamall forleggjari verður að aflýsa af því hann er fastur í framandi landi og kemst ekki út. Við hittumst síðar. Vona að þú sért í góðu skapi, yo Snæi.
ps. Skrifaðu til mín!“