Fyrsti vinnudagur á nýrri vinnustofu. Nú sit ég á fyrstu hæð og við mér blasir útsýni alla leið yfir Eyrarsundið til Svíþjóðar. Hér kemur listi yfir það sem ég sé út um gluggann minn.
- Ég sé niður í garð nágranna míns. Hann á einn hund og tvo ketti. Dýrin, eins og ég kalla þessar vingjarnlegu skepnur. Kötturinn minn hefur ánægju af að liggja í felum og fylgjast með dýrunum. Þessa stundina býr ung fjölskylda hjá þessum nágranna mínum og því hleypur oft lítil stelpa um garðinn. Hún er einstaklega hávær. Hún kallar í sífellu á foreldra sína til að fá aðstoð eða athygli.
- Ég sé gula húsið sem fyrrum fangi í útrýmingarbúðum nazista bjó í þar til hann varð tæplega hundrað ára. Hann dó fyrir fáum árum. Nú býr þar ung fjölskylda með tvö börn. Pabbinn á heimilinu er sérstaklega duglegur að leika við krakkana sína utandyra; spilar tennis, fótbolta, hjólar og vesenast út hið óendanlega með litlu börnunum sínum. Hann er glaður kall.
- Ég sé eyjuna Hveðn. Þar glóa nú heiðgulir rapsakrarnir. Hveðn tilheyrir Svíþjóð. Þar búa að jafnaði 360 manns og þar bjó glæpasagnahöfundurinn Maj Sjövall (Sjövall og Wahlöö) þar til hún dó nú í lok apríl. Hún keyrði um eyjuna á golfbíl (umferð bíla er bönnuð á eyjunni). Einu sinni sigldi ég til Hveðn og gekk einn hring í kringum eyjuna og þvert yfir hana. Þennan dag gekk ég 36500 skref sem er met sem ég hef enn ekki slegið.
- Ég sé Eyrarsundið og hér fyrir utan gluggann minn siglir núna farmskipið Madama (samkvæmt forritinu Marine traffic). Skipið hefur siglt alla leið frá borginni Manfredonia á Ítalíu og hefur verið á siglingu í meira en einn mánuð.