Espergærde. Hinn rétti taktur

Enn eru sviptingar á danska bókamarkaðinum og sænski risinn Bonniers gerir á ný strandhögg í Danmörku og kaupir bókaforlagið Strawberry sem enn hafði ekki gefið út eina einustu bók í Danmörku en aflað sér útgáfuréttar á nokkrum vinsælum rithöfundum eins og Camilla Läckberg, Viveca Sten,  Katrine Engberg. Það var norski milljarðamæringurinn Stendalen sem stofnaði Strawberry fyrir minna en einu ári en nú er Stendalen í klípu vegna Coronaveirunnar og neyðist til að selja forlagið sitt í Danmörku. Stendalen á nefnilega öfluga (eða var öflug) hótelkeðju og ferðaskrifstofu og þurfti í síðasta mánuði að reka 7500 manns. Nú skuldar hann 10 milljarða danskra króna (220 milljarða íslenskra króna) sem er allsvakaleg upphæð.

Ég er að reyna að finna taktinn á nýrri skrifstofu. Þegar ég hafði vinnustofuna utan heimilisins þurfti ég sjálfkrafa að hreyfa mig, ganga nokkurn spöl frá heimili til vinnustofu áður en ég byrjaði að vinna. Svo gekk ég heim í hádegismat þannig að á hverjum degi gekk ég 8000 skref fram og til baka til skrifstofu. Nú er spurningin hvernig ég kem hreyfingu inn í dagstaktinn. Í morgun klukkan átta gekk ég í klukkutíma áður en ég byrjaði og svo ætla ég að hlaupa mína fimm kílómetra síðdegis. En ég er ekki viss um að þetta sé rétti takturinn.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.