Espergærde. Í bíltúr með Murakami.

Haruki Murakami gengur í tvíhnepptum jakka þegar hann vill vera fínn. Hnapparnir eru gullhúðaðir og jakkinn dökkblár. Þetta rifjast upp fyrir mér þegar ég hugsaði um bíltúrinn sem við tveir fórum einu sinni í. Murakami var í heimsókn á Íslandi og ég var forleggjari þessa fámælta og kurteisa manns. Murakami sat við hlið mér í tvíhneppta jakkanum sínum. Við vorum einir í bílnum. Hann er ekki líklegur til að fara í langa göngutúra í þessum fína jakka, hugsaði ég. En ég hafði áætlað að ganga með honum eftir sléttum Þingvalla. En það var þægilegt að sitja í bíl með honum. Við þögðum löngum stundum og það var ekki erfitt að þegja í bíl með japanska rithöfundinum.

Inn á milli braut Murakami þögnina. Hann hafði sérkennilegan sið. Áður en hann vildi segja mér eitthvað byrjaði hann á því að reka upp stutta hláturroku til að gefa til kynna að hann hefði verið að hugsa um eitthvað fyndið og nú skyldi hann segja mér frá því sem var svona spaugilegt. Þannig liðum við um götur Reykjavíkur, upp Ártúnsbrekkuna og fram hjá Gljúfrasteini á leið okkar til Þingvalla.

Ein af þeim sögum sem hann sagði mér var frá árum hans sem eigandi jazzbars í Tókýó. Sagan snerist satt að segja ekki svo mikið um jazzbarinn heldur fyrst og fremst um plötusafn hans. Hann sagðist eiga fleiri en 10.000 hljómplötur. „Ég hef safnað vinylplötum frá því ég var lítill drengur,“ byrjaði hann sögu sína. Svo rak hann upp eina af sínum feimnislegu hláturrokum. „Ég hef oft slæma samvisku yfir öllum þessum hljómplötunum sem ég hef sankað að mér. Húsið mitt er yfirfullt af hljómplötum. Bókstaflega. En ég hef oft enn verri samvisku þegar ég hlusta einn á þessa fínu músik sem ég á. Ég skyldi leyfa fleirum að hlusta, hugsa ég oft. Einu sinni lét ég verða af því að fara í útvarpið, Tokyo FM, með nokkrar hljómplötur og var þáttastjórnandi í nokkrar vikur. Ég naut þess að fleiri en ég fengju hlustað á alla þessa fögru tóna. Bæði spilaði ég hljómplötur og talaði líka við hlustendur. Ég sagði þeim frá hornabolta, frá Beach Boys, Hall & Oates og eyjunni Mön, allt sem ég hef áhuga á. Næst þegar ég sest inn í útvarpsstúdíó …“ Hann þagnaði til að líta á mig og glotti. Ég man að ég hugsaði hvað mér þóttu augu hans verða lítil og hvað mikil kátína og orka streymdi frá þeim þegar hann var svona glaður. „Já, þá ætla ég að segja japönskum hlustendum mínum frá þessum bíltúr.“
„Nú, hvað ætlar þú að segja við japanska hlustendur þína um þennan bíltúr?“
„Það ætla ég ekki að segja þér núna, þú verður bara að hlusta.“
„Auðvitað … hvernig læt ég,“ sagði ég. Ég man að ég leit aftur á hann og mér fannst hann svo lítill í framsæti bílsins sem ég átti á þessum tíma. Það var risastór og eldgamall Mercedes Benz og Murakami er lítill og grannur.
„Síðast þegar ég sat einn í útvarpsstúdíóinu opnaði ég flösku af rauðvíni og drakk vínið á meðan ég hlustaði á tónlistina og talaði,“ hann hló og það var auðvelt að sjá að hann yljaði sér við tilhugsunina. „Ég ímyndaði mér gífurlegan fjölda fólks sem sæti heima hjá sér og hefði komið sér þægilega fyrir í hornstól í stofunni sinni og drykki vín með mér. Mér þótti þetta gaman og ég ætla að gera þetta aftur.“

Ég átti satt að segja erfitt með að sjá Murakami fyrir mér drekka rauðvín í japönsku útvarpsstúdíói en myndin situr föst í mér.

Ég segi frá þessu hér því að ég frétti að Murakami hefði í síðustu viku orðið við áskorun frá bæjarstjóra Tokyo, Yuriko Koike, um að fara aftur í útvarpsstúdíó og leggja sitt af mörkum til að halda upp góðri stemmningu í Japan með því að spila nokkrar af hljómplötum sínum og segja frá tónlist og hafnarbolta. Kannski segir hann frá bíltúrnum okkar.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.