Espergærde. Að baki daganna

Það er eins og sólin hafi ekki komið upp í morgun, slíkur er gráminn yfir höfðinu á mér. Venjulega, þegar ég vakna á morgnana og dreg gardínurnar frá svefnherbergisglugganum, stendur sólin í augnhæð á himninum, rauð eins og appelsína, og kastar geislum sínum yfir jörðina. En í dag grúfir yfir okkur hér í litla þorpinu við sjóinn lágt hangandi ský og úr þeim hellist þungt regn. Í aumingjagangi mínum hætti ég við að fá mér göngutúr í morgun. Regnið var svo blautt og þegar ég stóð á þröskuldi útdyranna sá ég fyrir mér svo ámátlega mynd af sjálfum mér, ganga einn og niðurrigndur á sandstígnum á milli kornakrana, að ég hrökklaðist aftur inn.

Í stað þess að arka af stað gekk ég inn í stofu, teygði ég mig af einhverjum ástæðum í bók Péturs Gunnarssonar, Að baki daganna, sem inniheldur ljóð og texta Péturs frá árunum 1974 – 2001 og settist í hornstól og hóf að lesa þessa fínu bók. Ég hef áður lýst aðdáun minni á orðhæfni Péturs.

Tvær ljóðabækur hafa sennilega gert mig – að minnsta kosti hluta til – að þeim sem ég er. Það er ljóðabók Péturs Gunnarssonar Splunkunýr dagur sem kom út í júnímánuði árið 1973. Ég kynntist þó ekki bókinni fyrr en síðar, þegar ég var orðinn sautján ára. Ég var svo hugfanginn að ég ákvað að gera ljósmyndaröð byggða á bókinni. Líf og sál lagði ég í verkið. Ljósmyndirnar framkallaði ég sjálfur, festi þær á hálfþykkt, blátt karton og vélritað ljóðið sem átti við myndina fyrir neðan. Úr þessu varð mikil mappa. Hún er nú týnd og kannski er það ekki mikill missir fyrir heiminn. Ég hafði eiginlega hugsað mér að senda Pétri möppuna með nafnlausu bréfi. En af því varð aldrei, ég var meira að segja of feiminn til þess að póstleggja möppuna, svo serían safnaði ryki í einhverri geymslu og hvarf að lokum endanlega í einum af flutningum mínum milli íbúða.

Hin bókin sem hafði gífurleg áhrif á mig var bók Braga Ólafssonar Ansjósur frá árinu 1991. Í marga mánuði gekk ég með þessa bók í vasanum og greip til hennar hvenær sem tækifæri gafst. Ansjósur á ég ekki lengur og höfundinn, sem ég síðar hafði nokkuð samband við, þekki ég ekki lengur. Ég veit ekki hvað varð af bókinni, hún er horfin, en höfundurinn er væntanlega á sínum stað, glaður og sæll.

ps ég hef ákveðið að bók Péturs verði bók vikunnar, ugens bog og leysir hún af hólmi bók Gunillu Bergström, Bittu slaufur, Einar Áskell sem var bók liðinnar viku.

pps. Ég hef allar götur frá því ég fann bókina Ansjósur haft gífurlega samúð með smáfisknum ansjósum. Mér finnst þær ekki sérlega bragðgóðar en ég kaupi oft dós með ansjósum nota í salat og set á pizzur þegar ég baka pizzur á sumrin.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.