Espergærde. Veðurlýsingar frá Mulholand Drive

Í stuttu máli tókst mér að ganga langan göngutúr í þurrviðri í morgun en það var kröftugur vindur úr vestri. Og tennisæfingin sem hófst klukkan 11:30 var blásin af klukkan 12:15 vegna þess að það var farið að helli rigna. og því vonlaust að spila tennis. Ég var í miðjum kappleik við læknisfrú þegar regnið hindraði tennisiðkun.

Ég skoða aldrei veðurfregnir eða veðruspár en segi frá dagsins veðurskilyrðum og veðurbreytingum vegna þess að mér var barst í morgun fjöldabréf frá David Lynch sem vildi vekja athygli á því að hann hefur opnað sína eigin veðurstöð. Á hverjum amerískum morgni kveikir hann á myndavél og segir frá veðrinu í Los Angeles eða í Kaliforníu. Þessa veðurlýsingu setur hann á YouTube. Þetta er bara um það bil einnar mínútu löng veðurlýsing. En þennan link fékk ég í morgun vegna þess að ég er sennilega enn á contact lista í símanum hans Lynch

Við David Lynch eigum nefnilega ýmislegt sameinginlegt. Við höfðum verið í nokkru sambandi út af verkefni sem danskur félagi minn vann í samvinnu við Lynch. Ég heimsótti hann árið 2017 þegar ég var á ferðalagi um Bandaríkin og það var sérkennilegur fundur. Við höfðum mælt okkur mót síðdegi eitt og hann sagðist vilja bjóða mér og fjölskyldu minni út að borða á nokkuð sérstökum stað — ekki sérlega „fansí“ eins og hann sagði — en þar fékk maður bestu beikonborgara í allri Kaliforníu. Ég hafði velt því nokkuð fyrir mér, áður en við mættum á stefnumótið við þennan fræga leikstjóra, hvað ég skyldi færa manninum sem hafði verið svo alúðlegur að bjóða okkur heim til sín. Svo heppilega vildi til að sama dag og stefnumótið var skipulagt rambaði ég á verslun í Los Angeles sem seldi Íslenskt brennivín og ég keypti það fyrir leikstjórann.

Hann tók á móti okkur með kostum og kynjum í stóru húsi í fínu hverfi. Í Kaliforníu er eilíft sumar svo ég skil ekki alveg hvers vegna David hefur tekið upp á því að byrja hvern dag með því að útvarpa veðurlýsingu. Þegar við gengum inn eftir garðganginum að útidyrunum hjá honum man ég að það var sérstakt sumarloft yfir okkur; hlý síðdegissól og algjör stilla, um þetta hugsaði ég eitt andartak áður en hann opnaði dyrnar fyrir okkur. Ég hafði eiginlega búist við að David ætti heima á Mulholland Drive, þeirri götu sem hann lýsti svo vel í samnefndri kvikmynd. Ég verð að bæta því við að ég sá Mulholland Drive-kvikmyndina í Háskólabíói á laugardagseftirmiðdegi árið 2001 og það var ein af eftirminnilegustu bíóferðum lífs míns. Ég man að Kristín Jóhannsdóttir leikstjóri og Sigurður Pálsson skáld voru á sömu laugardagseftirmiðdagssýningu og ég. Og ég held að þeim hafi liðið eins og mér, því þegar ég yfirgaf kvikmyndahúsið að lokinni sýningu, sá ég að þau sátu enn sem höggdofin í sætum sínum. Þau sátu lengi kyrr á sínum stað til að njóta þess sem þau höfðu séð.

Sem sagt David Lynch tók sérlega vel á móti okkur í stóra húsinu sínu í litlu götunni. Íslenska brennivínið sem ég afhenti honum í anddyrinu, var sko ekkert fyrir hann. Það skynjaði ég greinilega þegar hann tók á móti flöskunni. Hann var glaður og grannskoðaði flöskuna og spurði nákvæmlega út í innihaldið og gerði sér upp ánægju en það var greinilegt að hann skyldi aldrei láta þennan vökva inn fyrir sínar varir. Ég skildi hann svo sem vel en mér fannst bara eitthvað skemmtilegt að færa honum menningarvöru frá Íslandi.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.