Espergærde. Alófáanleg snilld

Það er ein bók sem ég sakna mjög að eiga ekki í bókasafninu mínu og það er bók Þorvaldar Þorsteinssonar Engill meðal áhorfenda. Mér fannst þessi bók á sínum tíma gersamlega frábær (það er mjög langt síðan ég hef lesið hana og veit ekki hvernig hún eldist). Bókin var ein af fyrstu bókum sem ég gaf út og ég var að springa úr stolti yfir að gefa bókina út. Bókin seldist alls ekki, bara alls ekki, og það kom mér svo á óvart. Ég hafði prentað bókina í töluvert stóru upplagi því ég var svo viss um að enginn gæti haldið vatni yfir þessar snilldarbók. En það gerðist sem sagt ekki og í mörg ár eftir að bókin kom út gaf ég bókina öllum sem ég hafði álit á – eða grunaði um að hefðu minnsta áhuga á góðum bókmenntum.

Á Bræðraborgastíg þar sem forlagið hafði skrifstofur í mörg ár kom oft múgur og margmenni á hverjum degi. Sumir áttu erindi við útgáfuna, aðrir við mig og enn aðrir vildu bara kaupa bækur Bjarts (eða ólífuolíu forlagsins sem fékkst á Bræðraborgarstíg á tímabili). Ætli mér hafi ekki tekist að gefa 1000 eintök af Engill meðal áhorfenda, það kæmi mér ekki á óvart. En nú á ég sjálfur sem sagt ekki eintak og ég er hræddur um að bókin sé alófáanleg.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.