Ég hef undanfarin kvöld horft á ágæta sjónvarpsþáttaröð byggða á sögu Sally Rooney, Normal People (Eins og fólk er flest, í íslenskri þýðingu). Ég veit ekki hvað hefur komið fyrir mig síðustu ár því ég er orðinn nokkuð viðkvæmari fyrir eymd fólks. Ég get hvorki lesið né séð sorglegar senur án þess að ég þurfi að berjast við öflugan öldugang innri tilfinninga. Ég freistast næstum því til að slökkva á bíómyndum sem mér finnst of sorglegar vegna þess að ég á erfitt með að halda sjálfum mér fyrir utan tilfinningalíf höfuðpersónanna. Þannig var það líka í gærkvöldi þegar ég fylgdist lífi unga fólksins í Normal People. Ég hef lesið bókina og þykir sjónvarpsgerðin vel heppnuð. Leikararnir góðir og andrúmsloftið innilegt.
Annars var ég að hugsa að næst þegar ég kem til Íslands – hvenær sem af því getur orðið – ætla ég að kaupa mér tvær bækur sem mig langar í. Í fyrsta lagi eru það sögur Daníels Kharms: Gamlar konur detta út um glugga og hin bókin heitir 43 smámunir eftir Katrin Ottarsdóttur. Þetta eru þær tvær bækur sem hafa komið nýlega út á Íslandi og vakið áhuga minn.