Ég var á göngu eftir sandveginum strax og morgnaði. Auðvitað hafði ég byrjað morguninn á morgunkaffi og morgunbrauði. Fyrsta máltíð dagsins er góð; einfaldleikinn og kyrrðin. En ég flýtti mér óvenjumikið í morgun. Mér lá dálítið á þar sem ég hafði hugsað mér að í dag skyldi ég klára að vinnu mína við bók sem ég hef skrifað og senda afraksturinn á ritstjórann. Það var þess vegna sem ég var að flýta mér. Þegar ég kom út fann ég milt maílogn leika um vanga minn og ég var aleinn á göngu. Enginn virtist vera vaknaður enda snemma dags. Kýrnar voru að vísu komnar á stjá handan girðingarinnar við sandstíginn. Þær bitu í safaríkt vorgrasið og voru ánægðar. En þær höfðu auðvitað ekki áhuga á hinum nefstóra göngugarp sem strunsaði meðfram túninu þeirra.
Ég var við enda sandstígsins þegar ég sá mann koma arkandi eftir þvergötu sem sker stíginn rétt við litlu götukrána. Ég þekkti göngulagið. Þetta var August greifi eins og ég kalla hann; greifi því hann er komin af gífurlega efnuðu fólki og hefur held ég aldrei sjálfur unnið ærlegt handtak. En August hefur frekar þungt sinn, eyðir ekki orku sinni á þá sem honum líkar ekki við. Ef hann hefði ekki tilhneigingu til að fitna væri hann gífurlega myndarlegur maður, hávaxinn, vöðvastæltur og með áberandi og flotta andlitsdrætti.
Ég beið hans á vegamótunum, fylgdist með honum nálgast og ég sá að glott myndaðist á fýlulegu andlitinu.
„Hvað sé ég?“ byrjaði hann þegar hann var kominn í talfæri. „Íslenskan morgunhana. Ég átti ekki von á að hitta hræðu hér úti á þessum tíma dags. Það hefði passað mér betur. Hvað viltu úti svona snemma?“
„Ég er bara að anda að mér maímorgninum, rápa um grjótið hér á sandveginum. Þú lítur vel út, bæði hressilegur og það er galsi í þér.“
„Lít ég vel út? Hah! Ég skal segja þér, að þegar ég var ungur maður og stundaði ég nám í Ingolstadt í Þýskalandi – ég lærði að vísu lítið en drakk því meira … En vinir mínir stríddu mér því ég hafði vanið mig á að skoða sjálfan mig oft og lengi í þeim speglum sem ég gekk framhjá. Og á herberginu mínu í Ingolstadt héngu margir speglar. Vinir mínir héldu að ég væri svo hégómlegur og þeir héldu að ég væri montinn og stoltur af útliti mínu. En þannig var það alls ekki. Ég speglaði mig til að sjá hvernig ég liti út. Spegill – hann segir sannleikann um okkur sjálf.“
„Já,“ sagði ég. „Það er aldeilis stuðið á þér. Sannleikurinn! Aldeilis!“
„Ef ég á að segja þér sannleikann um þennan veg sem þú gengur á þá get ég sagt þér að hann liggur til Pisa.“
Svona geta bara greifar talað. Hann er áhyggjulaus, barnlaus, konulaus og þarf hvorki að velta fyrir sér hvað hann segir eða hvernig hann framfleytir sér þessi ungi maður.