Henne Kirkeby. Andargiftin er hjá samtökum iðnaðarins.

Ég hef verið á ferðinni og þess vegna missti ég úr dag í dagbókarskrifum. Ég fór til Jótlands um helgina og gisti í Henne Kirkeby sem liggur á Vestur-Jótlandi, rétt við Vesterhavet, og tók stutta hringferð um Jótland áður en ég lenti aftur hérna heima. Tveir dagar á ferð. Ég hitti svo sem enga sem ég þekkti . Ég var bara á göngu út við hafið, las, skrifaði, drakk vín, bjór og borðaði góðan mat. Að vísu átti ég orðastað við mann á krá sem ég þekkti ekki en hann sagðist vera blaðamaður og af einhverjum ástæðum fór hann að nefna það við mig hvað honum þættu listamenn „almennt séð“ óinteressant flokkur. „Ég get sagt þér að mér þykir miklu áhugaverðara að mæta á ársfundi Samtaka iðnaðarins en að koma í haustveislu Gyldendal.“ (Haustveisla Gyldendal er fyrir marga samkvæmislífsins hápunktur og hjá mörgum sem unna dönsku menningarlífi er ekkert sem jafnast á þessa veislu. Til þessa mannfagnaðar eru boðnir helstu listamenn og kultúrfólk Danmerkur. Móttaka fer fram í ágúst ár hvert.) Sennilega var hann að ögra mér en mér var ekki ögrað því ég hef ekki skoðun á málinu. Hann hélt því áfram: „Listamenn eru svo óinspirerandi þeir eru upp til hópa orðnir eins konar embættismenn listarinnar og hafa ekkert að leggja til málanna annað en eitthvað sem ver hagsmuni þeirra sjálfra.“

Samtal okkar þarna á kránni við Henne Kirkeby var ekki mikið lengra en þegar ég fór að sofa síðar um kvöldið sóttu þessi orð á mig. Gæti verið rétt að listmenn samtímans séu upp til hópa ekki sérlega andaktugir? Upp til hópa óinteressant? Ég veit ekki, ég er ekki á facebook.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.