Espergærde. Ávaxtapeningarnir.

Ég veit svo sem ekki hvað ég ætlaði að græða á því að hella mér yfir hvert viðtalið á fætur öðru við afmælisbarn dagsins Raymond Carver. Eftir morgungönguna niður á höfn og aftur til baka hef ég ekki gert annað síðustu tvo klukkutíma en að lesa viðtöl og umfjöllun um Carver. Mér þótti það skemmtilegt en réttlætir það tveggja tíma setu og nú er að koma hádegi?

Um þessar mundir les ég smásögur Carvers. Það hef ég svo sem oft gert áður. Fyrir löngu gaf ég út safn smásagna Carvers í bókinni Beint af augum sem Sigfús Bjartmarsson þýddi. Það var í tengslum við frumsýningu þeirrar góðu kvikmyndarinnar Short Cut sem byggði á sögum Carvers. Bókin seldist ekki baun í bala. Því miður.

En ég hef þó lært eitt mikilvægt: ritvélin sem fyrsta kona Carvers keypti handa rithöfundinum, sem þá var orðinn forfallinn drykkjumaður og ekki til mikilla afreka líklegur, var af gerðinni Smith-Corona Coronet Typewriter. Ritvélina sem fylgdi Carver stærsta hluta lífs hans (hann varð bara 50 ára) keypti Maryanne, en það hét hún fyrsta kona Carvers, fyrir tveggja vikna laun sem hún aflaði við að pakka ávöxtum.

Maryanne naut þó ekki ávaxtanna af velgengni Carvers. Þeirra langa sambúð einkenndist af fátæktarbasli þar sem Maryanne sá meira og minna fyrir rithöfundinum og fylliríi Carvers með tilheyrandi ömurleika. Það var stuttu eftir að þau skildu og Carver hætti að drekka að viðurkenning og peningar fóru að streyma til höfundarins.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.