Espergærde. Kartöfluflögur og brokkolí.

Mér finnst hvítkál ansi gott og borða hvítkál, grænkál og brokkoli og hvað allt þetta hálfkál heitir. Mér finnst það bara rosalega gott. Táningarnir mínir tveir þeir eru ekki á sama máli. Kál er kvöð. Pasta hins vegar og chips það er toppurinn.

Ég minnist á þetta hér þar sem ég verð stundum undrandi þegar ég les dagblöðin, sérstaklega á netinu, einkum mbl.is þar sem ofuráhersla er lögð á fréttir af giftingum, skilnuðum, skandölum, ofdrykkju, brjóstastækkunum, framhjáhaldi, fitusogi, æfingum einkaþjálfa og megrun. Þarna eru í helstu hlutverkum Ásdís í Búlgaríu, Harry og Megan, Ronaldo, Kardashianfjölskyldan, WOW-Skúli, Anna vélstjóri og fleira fólk á Tenerife. Einu sinni fannst mér Morgunblaðið virðulegt, alvöru dagblað. En ekki lengur. En ekkert þýðir að gráta yfir þessu, þau tár eru til einskis, óhreinka bara jakkaermina. Fréttir hafa breyst og það mikilvægasta í dag er: Æ, en fyndið. En af hverju er þetta svo að fólk vill heldur lesa um tennur Ásdísar í Búlagaríu en t.d. greiningu á þróun lýðræðis í Bandaríkjunum? Er það ekki einmitt það sama sem ræður að fleiri vilja kartöfluflögur en spergilkál?

ps. Í morgun hitti konuna með hundinn, konuna með loðna, litla hundspottið sem geltir í sífellu. Ég átti von á pípulagningamanni og ákvað að ég skyldi gleðja hann Jakob pípara með því að bjóða honum upp á nýtt bakkelsi með kaffinu þegar hann kæmi. Ég flýtti mér því í morgun út til bakarans og keypti bakarískökur handa honum og á þessari hraðferð mætti ég konunni með hundinn. Hún hafði klippt allar rauðu krullurnar sínar og var orðin stutthærð. Hún varð jafnvel enn sorgmæddari á svipinn með þetta stutta hár. Ég ákvað því að staldra við og spjalla við hana á göngu minni. Ég vorkenndi henni fyrir að vera á þessu látlausa sorgarvafri um bæinn með hundinn í bandi. Og hvað var að frétta: Jú, maðurinn hennar var komin í meðferð við spilasýki. Það sagði hún mér í óspurðum fréttum. Ekki hefði ég veðjað á að maðurinn hennar væri spilafíkill en þegar ég hugsa um það núna í ljósi þessara nýju upplýsinga er hann svolítið eins og gambler þessi litli maður með stóru, tískuréttu gleraugun.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.