Espergærde. Sex minnisatriði frá degi í maí

Föstudagurinn 29. maí árið 2020. Hvers skyldi ég minnast frá þessum degi þegar ég lít til baka? Hér er listi yfir hugsanleg atvik, hugsanir eða athafnir sem koma til greina.

  1. Ég byrja á því sem mér dettur fyrst í hug. Hingað hafði boðað komu sína danski forleggjarinn Flemming. Hann þekkti ég ekki og hafði aldrei hitt. Flemming rekur forlagið sem keypti danska útgáfuréttinn á bókinni sem ég skrifaði í fyrra: Rannsóknin á leyndardómum Eyðihússins. Bókin kom út í Danmörku í vikunni – án þess að veröldin færi á hliðina – og Flemming vildi afhenda mér persónulega höfundareintökin. Bókin heitir á dönsku Hemmeligheden i det forladte hus. Ég var ánægður að hitta Flemming. Hann ber með sér góðan þokka og virðist hinn besti maður. Ekki verður blásið í neina lúðra til að vekja athygli á bókinni og ekki veit ég hvort hún eigi eftir að seljast hér í landi. Ekki virðist vera gert ráð fyrir því.
  2. Ég fékk óvæntan tölvupóst frá einum af leiðtogum Forlagsins; íslenska útgáfurisanum. Það gerist ekki oft. Í póstinum er mér tilkynnt að ég eigi töluvert háa peningaupphæð inni hjá Forlaginu vegna sölu bókar minnar á Íslandi. Það kom mér á óvart að bókin skyldi hafa selst jafn vel og raun ber vitni. Ég viðurkenni að ég varð glaður. „Þetta gat hann,“ svo ég vitni í skilaboð eins af höfuðpaurum forlagsbransans á Íslandi til vina sinna þegar bókin kom út á síðast liðið haust.
  3. Langhlaup dagsins var ekki nema fimm kílómetrar og ég jafnaði besta tíma síðustu viku. Hlaupaformið er að batna. Mig langar að ná aftur gamla hlaupaforminu.
  4. Sus er að lesa handritið að’ bókinni sem ég sendi til Forlagsins í síðustu viku og á að koma út í haust á íslensku. Þetta er önnur bókin um atburði í Álftabæ. Mér bæði til undrunar og ánægju fannst henni þessi bók nokkuð betri en sú fyrri; ég tek framförum, þótti henni.
  5. Ég las í Politiken að landsþekktur, sænskur matreiðslubókahöfundur hefði verið tekinn með buxurnar niðrum sig á vændishúsi í Stokkhólmi í áhlaupi lögreglunnar. Kaup á vændi eru ólöglegt í Svíþjóð. Maðurinn var ákærður og gula pressan komst yfir lögregluskýrslur og nú er á allra vitorði í Svíþjóð að þessi vesæli maður hafi borgað fyrir kynlíf. Ekki nóg með það heldur hafa stærstu búðarkeðjur í Svíþjóð fjarlægt allar bækur hans úr búðunum og forlagið hefur sagt upp samningi sínum við höfundinn. Þetta gera viðkomandi aðilar til að þvo hendur sínar af þessum manni. Ég varð nokkuð hissa á þessum hörðu viðbrögðum og ég fékk óbragð í munninn. En þetta er svolítið tímanna tákn. Í nútímanum kasta menn óhikað steini úr glerhúsi. Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum, var sagt og ef ég man rétt var engum steini kastað. (Ég vitna í gamla tíma). Væri ekki gott að hafa þessi orð í huga þegar maður mundar steini að þeim sem hefur misstígið sig, hrasað á dyggðarinnar óslétta vegi.
  6. Þegar ég var lítill strákur var pabbi minn fenginn til að vera þulur í útlenskum sjónvarpsþætti sem sýndur var í Sjónvarpinu. Þátturinn tengdist páskum á einhvern hátt. Ég man að mér þótti þátturinn heldur leiðinlegur og í miðri sjónvarpsútsendingunni stóð ég á fætur og bauð foreldrum mínum, sem sátu og fylgdust með sjónvarpsþættinum, góða nótt, ég ætlaði að fara að sofa. Ég man að ég tók eftir að pabba mínum brá yfir að ég skyldi ekki vilja vera vitni að frumraun hans sem þular í sjónvarpi og spurði mig varfærnislega hvort mér þætti þátturinn leiðinlegur. Ég stóð fyrir framan sjónvarpið þegar spurningin var borin upp og áttaði mig samstundis á að ég hafði sært pabba minn með því að nenna ekki að horfa á þáttinn til enda. „Nei, nei,“ sagði ég og ætlaði að setjast aftur niður til að byrja að horfa á þáttinn aftur. En pabbi sagði mér bara að fara að sofa, það væri allt í lagi að mér þætti þátturinn leiðinlegur. Ég fór í háttinn með nagandi samviskubit yfir að hafa sært pabba minn á þennan hátt. Hann átti það ekki skilið fannst mér.
    Ég segi frá þessu hér því hálfdönsku synir mínir tveir lesa ekki íslensku sér til skemmtunar. Þegar ég sá þá virða fyrir sér dönsku útgáfuna (var nýkomin í hús) af bókinni sem ég skrifaði datt mér þessi sena með pabba minn þulinn í hug. En synir mínir lögðu bara bókina frá sér eins og ekkert væri eðlilegra og sneru sér aftur að símunum sínum. Ekki herja samviskukvalir á mín börn, eða það vona ég ekki.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.