Espergærde. 10 mín bókmenntaskammtur að kvöldi

Undanfarin kvöld hef ég lagt mig upp í sófa með iPad sem ég á og lesið í hinni nýju barnabók sem JK Rowling birtir á heimasíðu sinni. Um klukkan hálf níu, þegar ég er búinn að elda mat, borða, vaska upp og ganga frá, hella mér upp á kaffi næ ég í iPadinn minn og skelli mér í sófann og les sögukaflann.

Rowling fékk hugmyndina að The Ickabog á sama tíma og hún var að skrifa Harry Potter séríuna. Hún skrifaði fyrsta uppkastið að sögunni milli þess sem hún lauk einni Harry Potter bók og byrjaði á annarri. Hún hafði hugsað sér að gefa út bókina á eftir Harry Potter og dauðadjásnið sem er síðasta Harry Potter bókin.

Þegar Rowling hafði skrifað síðstu Potter bókina gat hún ekki hugsað sér annað en stutt frí frá bókaútgafu. Það frí varð fimm ár. Rowling hóf að skrifa sína fyrstu skáldsögur fyrir fullorðna. Hlaupið í skarðið. Eftir töluverðar vangaveltur ákvað Rowling gefa barnabókaútgáfu lengra frí svo ekkert varð af útgáfu á Ickabog. Handritið setti Rowling í kassa og kom fyrir upp í geymslu á háalofti þar sem það lá og safnaði ryki í áratug. Söguna hafði Rowling lesið fyrir börnin sín þegar þau voru lítil sem góða nótt sögu.

Fyrir fáeinum vikum, þegar fjölskyldan sat saman yfir kvöldmat datt Rowling allt í einu þessi saga í hug og viðraði þá hugmynd að birta hana ókeypis á netinu, börnum sem voru í kórónaeinangrun til gleði. Börnin hennar sem nú eru táningar urðu gífurlega áhugasöm um útgáfu sögunnar svo Rowling sótti handritið og fór að vinna í því til að gera það útgáfuhæft. Hún las söguna aftur upphátt fyrir fjölskylduna á meðan hún vann í endurbótunum.

Og hvernig er svo þetta barnaævintýri JK Rowling? Það er fínt og ég hlakka til á hverju kvöldi að lesa þá þrjá kafla sem hún leggur út á hverju kvöldi. Nú er helgi þá er frí hjá Rowling og ég verð að bíða fram á þriðjudag að fá minn skammt.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.