Espergærde. Hin litlu tímamót

Valdi tiltekinn atburður algerum straumhvörfum í lífi manns telst hann vera tímamót. Þegar ég hugsa mig um man ég eftir tímamótum í lífi mínu sem falla að þessari skilgreiningu þar sem gert er ráð fyrir algjörum straumhvörfum. Um þau tímamót ætla ég ekki að skrifa, það yrði í alla stað einum of.

Hér kemur listi yfir þrjú smá-tímamót:

  1. Ég fékk einu sinni að gjöf græna markmannshanska. Á umbúðunum var mynd af Gordon Banks þáverandi landsliðmarkmanni Englands. Fengu hanskarnir, sem vöktu töluverða athygli meðal okkar drengjanna, nafnið Banks-hanskarnir. Þegar þeir voru teknir í notkun reyndust þeir sleipir eins og sápa og kostuðu nokkur mörk. Ég átti mjög erfitt með að trúa að hanskar sem Gordon Banks notaði væru svona lélegir og sleipir. Ég hóf því tilraunastarfsemi: ég gerði hanskana blauta áður en ég setti þá á mig en þeir urðu enn sleipari. Ég reyndi að nudda hönskunum niður í grasið og athuga hvort slíkt gerði hanskana betri til að grípa með. Nei. Laugardag einn var enska knattspyrnan í sjónvarpinu og Stoke átti heimaleik gegn Tottenham. Ég ákvað að setjast niður og fylgjast með Banks sem lék í marki Stoke og sjá hvað hann gerði við grænu hanskana svo þeir væru ekki svona sleipir. Strax á upphafmínútum leiksins var nærmynd af Banks þar sem hann grípur boltann örugglega, heldur honum föstum og sparkar honum fram á völlinn. En einmitt þessi stutta mynd af Banks sýndi hanskana sem hann hafði á höndunum. Þeir voru ekki grænir. heldur hvítir og þeir höfðu appelsínugula gúmmístrimla á fingrunum. Tímamót. Ég uppgötvaði að andlit Banks var notað til að selja lélega hanska. Eftir þessa uppgötvun hef ég ekki tekið sérlega mikið mark á meðmælum frægs fólks.
  2. Einu sinni um hávetur hitti ég mann á göngu. Ég man að þetta var fyrir framan Landakotspítalann. Það hafði snjóað og nýfallinn snjórinn náði upp fyrir ökkla. Ég hafði hjólað frá heimili mínu – sem skyndilega var í hverfi 108 – og hafði barist í gegnum skaflana upp Túngötubrekkuna þegar ég mætti manninum. Hann hafði húfu á höfði, svarta leðurhanska á höndunum og klæddur þykkum, svörtum ullarfrakka. Ég stöðvaði hjólið til að spjalla við manninn. Við tveir höfðum þekkst í nokkur ár, en mánuðina á undan hafði ég tekið eftir að eitthvað var ekki eins og það átti að vera í samskiptum okkar. Ég spurði hann því hvort eitthvað amaði að. Hann flissaði bara og sagði eitthvað út í hött. Ég man að undir samtalinu virti ég fyrir mér snjóinn sem sat á teinunum á hjólinu. Þetta var huglaust tal. Tímamót. Ég áttaði mig á að ég ætti ekki aftur eftir að ræða af viti við þennan mann.
  3. Ég var staddur inn í tóbaksbúð (ég hafði ætlaði að kaupa Capstan-tóbaksdós fyrir pabba minn í afmælisgjöf) þegar ég heyrði feitlaginn mann með ferköntuð gleraugu sem stóð upp við afgreiðsluborðið fræða afgreiðslumann búðarinnar (og eiganda) að fimmtíukróna mynt frá árinu 1973 væri mjög mikils virði. Miklu meira virði en 50 krónur. Ástæðan var að myntsláttufyrirtækið hafði einungis getað afhent um það bil 1000 stykki af myntinni til Íslands. Mótin sem þeir höfðu notað reyndust gölluð. Tímamót. Eftir þetta gat ég ekki handleikið 50 króna mynt án þess að athuga hvort hún kæmi frá árinu 1973. Að endingu fann ég einn slíkan pening og ákvað að geyma hann til betri tíma. Nú veit ég ekki hvar ég geymdi peninginn.

ps. Tímamót: Pizzaofninn var endurræstur eftir vetrarhlé. Mikil pizzaveisla var haldin í gærkvöldi hér á veröndinni og voru 11 pizzur bakaðar og reyndust þær allar góðar og gestirnir glaðir.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.