Espergærde. Sinnepsakrar

Enn lokar bókabúð Máls og menningar á Laugavegi. Þetta las ég í morgun. Einu sinni var þessi vel staðsetta bókabúð flaggskip íslenskra bókabúða en síðustu ár hefur verslunin verið ein hryggðarmynd; líflaus og glötuð. Ekki væri vitlaust fyrir eignarhaldsfélag Máls og menningar, sem hefur það að markmiði að efla útgáfu „góðra bóka“ eigi að taka yfir þessa gömlu perlu í íslensku menningarlífi og reka búðina sem alvöru bókabúð þar sem bókin sjálf er í öndvegi og allt það líf sem bókmenntirnar geta vakið. Það er nánast vonlaust að reka bókabúð í hagnaðarskyni, bókabúð þar sem peningasjónarmið ráða er dauðadæmd. Því verða samtök sem hafa það eitt að leiðarljósi að viðhalda bókmenntalífi að yfirtaka verslunina og gera hana að alvöru bókabúð með því sem nútíminn ætlast til að nútíma bókabúðum: mikið úrval nýrra og gamalla bóka, almennileg og áhugaverð uppstilling bóka, að búðin verði samkomustaður þar sem fólk getur sest niður og kíkt í bækur og blöð í mjúkum sófum, fengið kaffi og kaffihúsalíf og inni í búðinni þarf að skapast samfélag um líflegt bókmenntalíf. Starfsfólk þarf að vera bókmenntafólk og hafa sama áhuga og markmið. Búðin þarf að skipuleggja metnaðarfullar uppákomur í kringum bókmenntir og þá held ég að þurfi að hugsa í nýjum brautum. Upplestur einn og sér er ekki lengur áhugaverður.

Hér í Danmörku er sólskin og allt er svo grænt og safaríkt; grasið, blómin og trén. Sjórinn er spegilsléttur og á göngu minni horfi ég yfir til Svíþjóðar þar sem sinnepsakrarnir ljóma heiðgulir í sólskininu.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.