Espergærde. Vegvísir Maldinis og gáfusjarminn.

Ég á langan fótboltaferil að baki og sennilega verð ég að viðurkenna að fótbolti í sjálfu sér hefur ekki kennt mér margt um lífið eða aukið á tilvistarþroska minn. Ég fékk þó ómælda gleði af að spila fótbolta. Og það er/var/verður ómetanlegt í mínum huga. En í fótbolta lærði ég eitt sem ég tel mér trú um að hafi komið mér að gagni.

Þegar ég spilaði með AC Milan við hlið Paolo Maldini fékk ég óspart hrós og góðar leiðbeiningar frá þessum vinnusama samherja mínum í vörninni. Hann sagði alltaf: þú skalt aldrei finna að leik félaga þíns, kvarta undan mistökum hans, heldur eilíflega benda á mögulegar leiðir til að gera betur og styrkja það sem hann annars gerði gott. Á þann hátt yrði bæði leikmaðurinn og liðið betra. Þetta lærði ég.

Ég minnist á þetta hér eftir að hafa lesið viðtal við einn af forystumönnum hins svokallað Pírataflokks, Björn Leví. Ég flutti burt frá Íslandi áður en þessi fokkur var stofnaður og áður en þetta ágæta fólk sem starfar fyrir flokkinn fór að verða áberandi í íslensku mannlífi. Kannski þess vegna hafa stefnumál Pírataflokksins verið mér eilíf ráðgáta. Hvað vill Pírataflokkurinn? Hver eru baráttumál flokksins? Sjóræningjaflokkurinn? Ég hef satt að segja lagt mig fram um að skilja samtökin en ekki tekist það. Og einmitt í þeim tilgangi að reyna að öðlast meiri innsýn og þekkingu á hugarheimi Pírata á Íslandi las ég þetta viðtal við Björn Leví sem birtist í Kjarnanum í morgun. Yfirskrift viðtalsins er: Hvernig sér Pírataflokkurinn framtíðina fyrir sér. Ég las spenntur.

Kjarni málfærslu Björns Levís snýst um að benda á galla hinna, (eða annarra) í stjórnmálum og ég leitaði ákaft að vísbendingum í samtalinu við Björn um hvað Pírataflokkurinn vildi, en það var eins að leita að nál í heystakki (svo maður beiti nú gömlu orðtaki). Akkúrat andstætt því sem Maldini ráðlagði mér, bendir Björn Leví nánast eingöngu á hið neikvæða hjá liðsfélögum sínum á Alþingi. Á einum stað rétt glimti þó í eitthvað sem gæti hugsanlega vísað í vilja og markmið Pírata: „Við deilum valdinu með því að deila tækninni. Við verðum sem sagt að passa upp á að það verði ekki einokun á sjálfvirkninni. Það er algjört lykilatriði.“

Þetta er satt að segja nánast óskiljanlegt eða ansi loðið. Þetta hefði Maldini aldrei sagt.

Satt að segja mátti ég ekki við að lesa þetta máttlausa orðagjálfur hjá ungum stjórnmálamanni, því nákvæmlega í dag hafði ég vonað að heyra eitthvað uppbyggilegt og snjallt þegar allt flæðir í leiðindafréttum um Donald Trump og kórónavírusinn. Og það gerir smám saman út af við mig.

En hann hefur ekki sjarma þessi Björn Leví og heldur ekki hinir félagar hans í Pírataflokknum. Þau hafa engan gáfusjarma, ekkert blik í augunum, því miður. Ef ég væri í Pírataflokknum mundi ég reyna að komast á samning hjá AC Milan og spila í vörninni með Maldini að minnsta kosti eitt leiktímabil, þá lærir maður að minnsta kosti að benda á framfaraleiðir í stað þess að horfa sífellt um öxl til að finna að, fussa, sveia og gretta sig.

Þetta er nánast pólitísk dagbók í dag. Yo.

ps. Mér finnst Katrín Jakobsdóttir hafa gáfusjarma.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.