Espergærde. Uglan og hundurinn

Á netmiðlinum mbl.is las ég í morgun um nýjasta skrefið í angistarfullri baráttu Pennans Eymundsson gegn Storytell. Nýjasta baráttuvopn Pennans-Eymundsson er að henda öllum bókum bókaforlagsins Uglu út úr búðum fyrirtækisins, vitandi að forlagið hefur 90% af tekjum sínum hjá Eymundsson. Angistarfulla kalla ég baráttuna en orðið sem kom upp í huga mér var satt að segja „aumkunarverð“. Bókaforlagið Uglan hefur verið í samstarfi við Storytell í nokkurn tíma og það er einmitt samstarf Uglu við Storytell sem vekur þessi harkalegu og örvæntingarfullu viðbrögð bóksalans.

Ingimar heitir hann og er einn af forsvarsmönnum Pennans-Eymundsson og hann hefur hafið sína litlu herferð til að gera Storytell tortryggilegt fyrirtæki með skrifum sínum í Morgunblaðið og annars staðar. Bendir Ingimar meðal annars á að Storytell á Íslandi sendi móðurfyrirtæki Storytell í Svíþjóð stórar fjárhæðir og greiði þar með minni skatt á Íslandi. Það er kannski allt rétt en kannski eru til eðlilegar skýringar á peningasendingum til útlanda, ekki veit ég það. En málið er bara að gremja Pennamannsins er í sannleika sagt ekki vegna þess að Storytell sendi peninga til Svíþjóðar, heldur liggur rót reiði hans til að bóksalan hjá Pennanum Eymundsson minnkar vegna þeirrar nýju tilhneigingar hjá þeim sem hafa áhuga á bókmenntum að vilja sækja bækurnar hjá Storytell (hljóðbækur) en ekki hjá Pennanum. Þess vegna er þessi barátta Pennans að gera Storytell tortryggilegt svo hjáróma. Það fer í taugarnar á mér þegar menn geta ekki kallað hlutina réttum nöfnum. Þar fyrir utan er baráttan gegn þeirri þróun að fleiri velja streymisveitur til að uppfylla bókmenntaþarfir sínar bara töpuð. Sorry, Penninn-Eymundsson. Þetta vekur auðvitað vondar tilfinningar hjá smásalanum en það er skammarlegt að leggjast svo lágt að ganga í skrokk á litlu bókaforlagi til að fá útrás fyrir vonbrigði sín.

Ég vildi að ég gæti gefið Pennanum-Eymundsson nýtt hjarta og leggja fyrirtækinu nýjan anda í brjóst. Ég vildi að ég gæti tekið steinhjartað og gefið þeim hjarta fullt af brennheitu blóði. Hjarta sem slær fyrir bókmenntirnar í landinu en ekki þann svikula Guð sem þeir hjá Penninn trúa á og þjóna.

ps. Ég fékk mér göngutúr í morgun og það er ekki í fyrsta sinn sem ég geng út í góða loftið snemma morguns. Ég hef undanfarnar vikur tekið eftir tveimur mönnum, hvor með sinn hund, sem virðast hittast eldsnemma hvern morgun við lítinn bekk hjá einni af baðbrúnum (eins og þær eru kallaðar hér í Danmörku) við Strandvejen. Þar setjast þeir til að spjalla saman. Það fyndna er þegar þessir tveir menn, sem koma hvor úr sinni áttinni, eru í sjónmáli kallar annar maðurinn alltaf hátt og snjallt. „Hæ, Snati.“ Það tók mig nokkra daga að átta mig á að það var hundinum sem hann heilsaði alltaf á þennan hátt. Snati var ekki spjallfélagi hans heldur var það hundurinn sem fékk fyrstu kveðju dagsins. Hæ, Snati. Þetta þykir mér fyndið.

dagbók

Skildu eftir svar

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.