Þegar ég kom niður í morgun eftir væran nætursvefn varð mér litið út um gluggann, út í garðinn minn. Mér til nokkurrar undrunar hafði einhver tekið þrjá stóla frá borðinu sem við borðum stundum við úti á veröndinni og stillt upp í garðinn. Þegar ég virti þessa sýn fyrir mér, þessa þrjá stóla úti á grasi, datt mér strax í hug að systurnar þrjár hefðu verið í heimsókn. Þrjár systur í heimsókn eftir Anton Tsjekohov heitir myndin. (sjá mynd hér að ofan)
Í gær fékk ég sendan fyrsta útlenda ritdóminn af bókinni sem ég skrifaði í fyrra. Ég hef aldrei fengið útlenda ritdóma og svo kom hann í gær. Ekki hefði mér dottið í hug þegar ég var ungur maður að ég ætti eftir að fá ritdóm fyrir bókaskrif í Danmörku. Bókin kom út fyrir nokkru í Danmörku og í gær var forleggjarinn svo vinsamlegur að senda mér dóminn. Ég var glaður að lesa þessa bókaumfjöllun, meira að segja mjög glaður og í morgun þegar ég settist við dagbókina mína hafði ég ekki í hyggju að segja frá dómnum þar sem mér fannst það bara mont að flagga svona fínum dómi. En ég verð að minna mig aftur á að þetta er mín dagbók, ætluð mér og ég má vel monta mig fyrir sjálfum mér. Þeir sem lesa þetta mont verða að fyrirgefa mér því þetta sem hér er skrifað er ekki endilega ætlað fyrir annarra augu en mín eigin gömlu augu.
En ritdómurinn hljóðar svo:
„Íslensk list hefur sérstaka útgeislun. Eitthvað órætt, eitthvað sérstakt. Ávallt svolítið á skjön og undarlegt; ákaflega áhugavert. Þetta er líka tilfellið með bókina „Hemmeligheden bag det forladte hus” eftir Snæbjörn Arngrímsson. Sagan gerist í litlu íslensku þorpi þar sem uppi á hæð liggur eyðihús sem auðvitað er umlukið dulúð. Ekki verður dulúðin minni þegar trékista með undarlegt egg finnst á bókasafni þorpsins.
Milla og Guðjón G. Georgsson geta ekki hamið forvitnina og ákveða að reyna að leysa gátu eyðihússins. Þetta er „leynilögreglusaga“ sem líka slær um sig með örlítilli fantasíu. Sagan er spennandi, google-krefjandi og áhugaverð lesning fyrir alla fjölskylduna. Arngrímsson velur orðin af klókindum og kaflarnir eru knappir sem eykur á spennuna þannig að það fer um mann sæluhrollur við lesturinn. Bókin fékk Íslensku barnabókaverðlaunin árið 2019 og það er greinilegt af hverju. Þetta er góð saga af þeirri gerð sem maður finnur sjaldan.
Bókin er kjörin í sumarfríið, í sumarbústaðinn eða tjaldið – fyrir ykkur öll. Þessi bók er nefnilega þannig að manni langar alltaf til að lesa einn kafla í viðbót.“ Yo!
Flott, Snæi minn. „Þetta gat hann.“